fbpx
Laugardagur 13.september 2025
Fréttir

Jólastríð á aðventunni: Framkvæmdastjóri Siðmenntar segir Sigmund bulla

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 19. desember 2019 09:58

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Rangfærslur, mýtur og uppgerðarrök er einkunnin sem  Siggeir Fannar Ævarsson, framkvæmdastjóri Siðmenntar, gefur umtalaðri grein eftir Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Miðflokksins, þar sem Sigmundur hélt því fram að vegið væri að jólahefðum hér á landi.

Grein Sigmundar Davíðs birtist í Jólablaði Miðflokksins á Suðurlandi og DV fjallaði um hana í gær. Sigmundur Davíð minnti þar á að góðar jólahefðir væru ekki sjálfgefnar:

„Við megum þó líta á allt það góða við íslenskt jólahald sem sjálfgefna og óumbreytanlega hluti. Friður og samkennd jólanna er afleiðing langrar sögu sem þarf að rækta og varðveita. Þess vegna er það sérstakt áhyggjuefni að á undanförnum árum hafi verið leitast við að þrengja að hefðum og jafnvel grundvelli jólahalds á Íslandi og víðar. Eins og alltaf eru slíkar breytingar boðaðar í nafni góðra markmiða og með vísan í jákvæð orð eins og frelsi og fjölbreytileika.“

Sigmundur Davíð sagði einnig að sú hefð að eiga frí um jólin væri í hættu:

„Þannig er okkur sagt að í nútímasamfélagi geti ekki gilt gamlar reglur um frí á helgidögum. Frelsið kalli á að fyrirtæli fái að láta fólk vinna þá daga eins og aðra daga. Vitanlega hafa margar stéttir ætíð þurft að vinna á jólum (t.a.m. heilbrigðisstarfsfólk, löggæsla og slökkvilið) en þá hefur verið litið á það sem lofsverða fórnfýsi þeirra sem starfa fyrir samfélagið. Um leið hefur þótt rétt að þeir sem þyrftu að vera við vinnu yfir jól fengju að njóta hátíðarinnar eins og kostur er fremur en að jóladagarnir væru eins og hver önnur vakt.“

Enn fremur telur  Sigmundur Davíð að sumir vilji banna jólin og að skólabörnum sé meinað að fara í kirkju á aðventunni:

 „Verra er þó að borið hefur á því að jólahaldi sé að verulegu leyti úthýst úr sumum af mikilvægustu stofnunum samfélagsins. Það á til dæmis við um skóla í sumum sveitarfélögum, einkum í Reykjavík. Dæmi eru um að börn fái ekki að fara í kirkju með skólanum fyrir jól eða sýna jólaleikri og jafnvel ekki að halda litlu jólin í skólanum. Undirbúningur jólanna í skóla hefur frá upphafi verið stór þáttur í aðdraganda friðarhátíðarinnar á Íslandi. Kynslóð fram af kynslóð hefur jólaundirbúningur í skólum veitt börnum einstakar ánægjustundir og verið liður í því að viðhalda hinni sameiginlegu íslensku jólamenningu.“

Segir Sigmund Davíð halda flökkusögum á lífi

Annar þingmaður Miðflokksins, Birgir Þórarinsson, skrifar grein í sama anda í jólablaðið. Siggeir Fannar Ævarsson, framkvæmdastjóri Siðmenntar, stígur fram á Vísir.is í gær og svarar þeim félögum. Telur Siggeir að í skrifum beggja sé ímyndaðri hættu haldið á lofti:

„Fremst í blaðið skrifa þingmennirnir Birgir Þórarinsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hvor sinn pistilinn, sem báðir taka algjörlega út fyrir allan þjófabálk í rangfærslum, mýtum og uppgerðarrökum. Þeir félagar gera sitt besta til að halda lífi í flökkusögum sem kristnir íhaldsmenn taka mjög nærri sér, en eiga sér engar stoðir í raunveruleikanum þegar betur er að gáð.“

Segir hann að báðar greinarnar séu endurómur af áróðri á hinni hægri sinnuðu bandarísku sjónvarpsstöð Fox. Siggeir telur fráleitt að frí á helgidögum séu á undanhaldi enda séu þau lögboðin í kjarasamningum. Birgir gerir að umtalsefni þá horfnu hefð að Gídeónfélagið fari í skóla og gefi börnum Nýja testamentið. Um þetta segir Siggeir:

„Birgir harmar mjög að Gídeonfélagið hafi ekki lengur óheftan aðgang að skólabörnum á skólatíma. Persónulega finnst mér það afar vafasamt að félög sem stunda trúboð hafi nokkurn aðgang að skólum og skólabörnum. Kristnir foreldrar geta alveg örugglega fengið Nýja testamentið frá Gídeonfélaginu ef þeir óska eftir því, utan skólatíma.“

Siggeir andmælir því harðlega að kristnifærði hafi verið bönnuð í skólum, segir hann þetta vera útúrsnúning:

„Kristnifræði er vissulega (og eðlilega) ekki lengur kennt sem sérstakt fag, en er ennþá lykilpartur af því sem nú heitir trúarbragðafræði. Þetta er svona eins og að segja að Íslandssaga hafi verið bönnuð í framhaldsskólum þegar Saga 103 varð til. Jafnframt segir í 1. málsgrein grunnskólalaga að starfshættir grunnskóla skuli mótast af kristinni arfleifð íslenskrar menningar. Það er því óhætt að fullyrða að staða kristninnar sé sterk í íslensku skólasamfélagi enn þann dag í dag.“

Sigmundur gerir meðal annars hinu þekkta deilumáli, kirkjuheimsóknum skólabarna á aðventunni, skil í sinni grein og Siggeir svarar honum:

„Einnig fullyrðir Sigmundur að jólahaldi hafi að verulegu leyti verið úthýst úr sumum af mikilvægustu stofnunum samfélagsins. Kirkjuheimsóknir séu nú bannaðar, sem og litlu jólin og jólaleikrit. Allt er þetta rakin vitleysa og bull. Vissulega hafa verið settar reglur um samskipti trúfélaga og skóla, en ekkert hefur verið bannað. Stærsta breytingin er sennilega sú að mælst er til þess að kirkjuferðirnar séu fræðandi og á forsendum skólanna, en ekki trúboð af hendi kirkjunnar.

Helgileikrit eru enn á dagskrá í fjölmörgum skólum, og ég fullyrði að hvergi hafi litlu jólunum verið úthýst úr skólastarfi, enda engin ástæða til. Kristnir hafa nefnilega engan einkarétt á jólunum, og því síður þeim litlu. Það er afskaplega eðlileg þróun að jólahald í skólum breytist og þróist eftir því sem samfélagið okkar breytist. Stór hluti þjóðarinnar tilheyrir ekki lengur kristnum trúfélögum, og það er ekkert nema bæði sjálfsagt og eðlilegt að tekið sé tillit til lífsskoðana allra Íslendinga þegar kemur að jólunum, en ekki bara sumra.“

Siggeir segir að hver og einn þurfi að móta sínar jólahefðir og segist hann sjálfur vera jólabarn. Allt tal um að jólin séu í hættu og verið sé að þeim séu mýtur og flökkusögur.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kemur Quang Le til varnar – Útskúfun úr samfélaginu að hafa ekki aðgang að bankareikningi

Kemur Quang Le til varnar – Útskúfun úr samfélaginu að hafa ekki aðgang að bankareikningi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Segja það geta verið lífshættulegt að hafa Konukot í Ármúla 34

Segja það geta verið lífshættulegt að hafa Konukot í Ármúla 34
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þekkt leyniskytta telur að skotárásin á Charlie Kirk hafi verið vel skipulögð

Þekkt leyniskytta telur að skotárásin á Charlie Kirk hafi verið vel skipulögð
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Rekinn úr starfi vegna ummæla um Charlie Kirk í beinni útsendingu

Rekinn úr starfi vegna ummæla um Charlie Kirk í beinni útsendingu