„Þetta uppátæki Svanhildar Hólm – að sækja um stöðu útvarpsstjóra – sýnir okkur hið furðulega samband Sjálfstæðismanna við Ríkisútvarpið,“ segir Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar.
Guðmundur Andri telur að fari svo að Svanhildur Hólm Valsdóttir verði ráðin útvarpsstjóri geti hún ekki talist trúverðugur fulltrúi stofnunarinnar. Hann segir í færslu á Facebook:
Auðvitað er Sjálfstæðisflokkurinn ekki krabbamein í þjóðlífinu eða bandalag barnaníðinga. Þetta er bara fólkið í næsta húsi, frændur og frænkur – vissulega svolítið margir forstjórar og kvótagreifar en þó fyrst og fremst fólk sem hefur sterka sannfæringu fyrir því að málum sé allajafnan betur komið í höndum einstaklinga og félagasamtaka en ríkisins, sem þetta fólk lítur á sem eitthvað annað en samstarf um samfélagsleg úrlausnarefni sem fjármagna þurfi með sköttum. Fólk sem trúir því að hver sé sinnar gæfu smiður – ekki með spurningamerki, eins og Kata frænka orðaði það. Sem sé: Sjálfstæðisflokkurinn er ekki illvirkjasveit. Slíkt orðræða missir marks þegar horfinn er fyrsti stundarunaðurinn af því að ausa fúkyrðum yfir fólk.
Guðmundur segir að Sjálfstæðisflokkurinn sé ekki heldur hinn eðlilegi vettvangur valda og samskipta í samfélaginu. Trúnaðarstörf fyrir flokkinn séu ekki endilega góður undirbúningur að valdastöðum á samfélagsvísu. Hann beinir orðum sínum svo til Svanhildar Hólm og segir að manneskja sem hefur aðstoðað formann flokksins árum saman, meðal annars við framkomu í fjölmiðlum, sé ekki heppileg til að gegna starfi á borð við starf útvarpsstjóra. Svanhildur hefur verið aðstoðarkona Bjarna Bendiktssonar frá árinu 2012 en þar áður var hún framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðisflokksins.
„Þar með er ekki sagt að viðkomandi sé ekki góður og frambærilegur starfskraftur – hún hefur sýnt að það er hún svo sannarlega – en manneskja sem sinnt slíkri trúnaðarstöðu fyrir slíkan valdamann er einfaldlega ekki trúverðugur fulltrúi stofnunar sem okkur er öllum mikið í mun að sé sjálfstæð og sterk og ekki í þjónustuhlutverki við ríkisstjórnir hverju sinni.“
Guðmundur veltir svo fyrir sér sambandi Sjálfstæðisflokksins og RÚV.
„Þetta uppátæki Svanhildar Hólm – að sækja um stöðu útvarpsstjóra – sýnir okkur hið furðulega samband Sjálfstæðismanna við Ríkisútvarpið. Annars vegar standa þeim í linnulausum árásum á stofnunina, með hótunum og hlutdrægnibrigslum gagnvart hverjum þeim sem ekki hefur svarið trúnaðareiða í Valhöll – láta eins og það sé sérstakt keppikefli allra sem þarna starfa að ráðast á Sjálfstæðisflokkinn – og hins vegar telja þeir sig geta gengið þarna inn og út að vild og tekið sér þær stöður sem þá fýsir hverju sinni.“