Steinunn Anna Radha var stödd á skemmtistað í Reykjavík aðfaranótt sunnudags. Þar hitti hún vinkonu sína í einn drykk og endaði lömuð heima hjá sér. Steinunni var byrlað ólyfjan og telur hún sig afar heppna að hafa komist örugg heim. Í samtali við DV segist hún fyrst og fremst vera þakklát.
Gjörsamlega lömuð
„Ég hitti vinkonu mína og við ætluðum að spjalla og sitja í rólegheitunum. Svo förum við eitthvað aðeins að standa upp og heilsa fólki. Og allt í einu, upp úr þurru, alveg einhverju síðan ég hætti að drekka missti ég tilfinninguna fyrir öllu neðan mitti og fékk rosa krampa í allan líkamann. Réð ekkert við hann, þannig ég þurfti aðstoð við að komast heim og upp í rúm. Það þurfti bara að halda á mér,“ segir Steinunn.
„Ég gat ekki stjórnað líkamanum og varð ringluð á hátt sem ég hef ekki upplifað áður. Mér var byrlað. Ég var gjörsamlega lömuð eftir einn drykk.“
Steinunn missti allan mátt í líkamanum en hugurinn var eins skýr og aðra daga. Hún segir að þetta hafi verið afar ógnvekjandi upplifun.
„Ég var allan tímann hundrað prósent með meðvitund og þannig séð edrú. Það var bara líkaminn sem hlýddi mér ekki. Ég veit ekki hvernig ég á að lýsa þessu. Það var mjög óþægilegt að vera hundrað prósent á staðnum en ekki með líkamann með sér í liði.“
Klæðaburður skiptir ekki máli
Til allrar lukku komst Steinunn örugg heim með hjálp vinkonu sinnar. Hún vill vekja athygli á klæðaburði sínum þetta kvöld.
„Ég hef stundum fengið að heyra það þegar ég hef klætt mig í efnaminni föt að ég væri illa stödd fyrir réttarkerfinu þegar ég gerði það og það er kannski rétt en í þetta skiptið var ég í ullarfötum og lopapeysu yfir,“ segir hún.
„Ég hef staðið í dómsmáli og verið þá spurð í hverju ég var þegar árásin átti sér stað. Það getur hver sem er lent í þessu, óháð því hver þú ert.“
Steinunn Anna segist ekki vera búin að leita sér læknishjálpar en ætli hugsanlega að gera það í dag. „Ég er bara ekki ennþá búin að jafna mig. Ég er ennþá hálflömuð og get takmarkað gengið. Ég er rosa ringluð,“ segir hún.
Vill opna umræðuna
Steinunn segir að þörf sé á meiri umræðu um byrlun ólyfjan.
„Mér finnst ekki nógu mikið talað um þetta. Önnur vinkona mín lenti í þessu sama, á sama tíma, bara öðrum stað. Hún var líka heppin eins og ég og komst örugg heim,“ segir hún.
„Mikið er ég þakklát fyrir að geta gengið í dag og fyrir allt fólkið sem segir mér að passa mig og velur þau orð yfir að því þyki vænt um mig. Ég fer varlega en manneskja með illkvittinn ásetning framkvæmir óháð hegðun eða fatnaði. Þess vegna passa ég mig og vakna heppin og þakklát.“