Eins og kom fram í frétt DV í morgun funduðu Gunnar Nelson, Haraldur faðir hans og Jón Viðar Arnþórsson formaður Mjölnis nú í hádeginu til þess að ræða hvort bardagi Gunnars á sunnudags verði kærður til UFC. Ástæðan er sú að á myndböndum frá bardaganum sést andstæðingurinn, Argentínumaðurinn Santiago Ponzinibbio, pota þrisvar sinnum í auga Gunnars.
Sjá einnig: Kæra líklega bardagann
Jón Viðar og félagar hans hjá Mjölni voru vitanlega ósáttir við þetta og vill Jón Viðar skora á UFC að láta endurtaka bardagann. Aðspurður hvort það væri komin niðurstaða í málið segir Jón Viðar:
„Ekki þannig. Það er verið að tala við umboðsmann Gunna hérna í Bandaríkjunum og John Kavanagh líka og hann er að senda bréf til UFC núna. Það er ekki alveg komin niðurstaða í þetta.“
Eitthvað líklegra en annað?
„Ekki beint. Hann er bara heima að skrifa einhver bréf núna. Hann er í sambandi við Audie Attar sem er umboðsmaður Gunna og John Kavanagh og hann er búinn að tala við þá í dag. Við viljum ekki gefa út neina yfirlýsingu alveg strax, fyrr en allir eru á sömu blaðsíðu,“ segir Jón Viðar og býst við niðurstöðu í kvöld eða morgun:
Er reiði í fólki?
„Það er mikil reiði.“
Hvað myndir þú vilja gera?
„Ég myndi vilja bara kæra þetta og fá rematch“
Vill Gunnar að bardaginn verði endurtekinn?
„Hann vill alla vega ekki að þetta komi honum eitthvað aftur á bak. Hann vill annað hvort fá rematch eða fá einhvern góðan, einhvern góðan gæja næst.“
Er hægt að ógilda úrslit í MMA?
„Maður hefur séð það ef menn falla á lyfjaprófum og svona. Maður hefur séð það í MMA að menn hafa náð því að ógilda úrslit en maður veit ekki með svona augnpot.“