Jón Magnússon fyrrverandi þingmaður fór nýverið í helgarferð til Alicante á Spáni ásamt eiginkonu sinni. Vinur hans fór með sinni konu í helgarferð til Akureyrar. Jón segir frá því á Fésbókarsíðu sinni að þeir hafi svo rætt saman um verðlag á flugfari og gistingu til þessarra tveggja áfangastaða segir Jón að það hafi komið í ljós að helgarferðin til Akureyrar var rúmlega helmingi dýrari en ferðin til Alicante.
Vinur minn fór með konu sinni í helgarferð til Akureyrar. Ég fór með minni til Alicante. Við hittumst í hádeginu og verðlag á flugfari og gistingu kom til tals. Í ljós kom að helgarferðin til Akureyrar var rúmlega helmingi dýrari en ferðin til Alicante,
segir Jón og bætir við:
Svona er nú okurlandið í dag.
Jón telur því að einhver þurfi að hugsa sinn gang:
Þegar útnárastaðir selja gistingu á þreföldu verði miðað við fimm eða fjagra stjörnu hótel á meginlandi Evrópu þá held ég að einhver þurfi að fara að hugsa sitt ráð og skoða sinn gang áður en það sem áunnist hefur verður rifið niður.
Mestu munar um matarkostnað
Í lauslegri úttekt Eyjunnar á verði á flugi og gistingu til bæði Alicante og Akureyrar kemur í ljós að ferð til Alicante í gengum Dohop kostar á bilinu 24 til 30 þúsund krónur á mann. Gisting á fjögurra stjörnu hóteli á Alicante fyrir tvo yfir helgi kostar ríflega 30 þúsund krónur. En þó skal hafa í huga að verðið getur lækkað töluvert ef pantað er með löngum fyrirvara.
Með sömu dagsetningum, önnur helgin í október 2017, kostar flugið til Akureyrar á nettilboði 28.910 fyrir tvo farþega. Gisting á Akureyri kostar svo á bilinu 20 til 40 þúsund krónur.
Ef farið yrði næstu helgi kostar ódýrasta flugið til Alicante rúmlega 100 þúsund krónur fyrir tvo. Fjögurra stjörnu hótel á Alicante fyrir tvo kostar svo um 50 þúsund krónur með morgunverði.
Flugið til Akureyrar myndi kosta rúmlega 58 þúsund krónur fyrir tvo. Gisting í tvær nætur á Hótel Eddu myndi svo kosta rúmlega 65 þúsund krónur.
Hins vegar, þegar litið er til matarkostnaður er munurinn nokkur, sem dæmi kostar fjögurra rétta máltíð fyrir tvo á Strikinu á Akureyri 17.800 krónur, en þriggja rétta máltíð fyrir tvo á Alicante kostar rúmlega 5000 þúsund krónur. Ef farið er á veitingastað á bæði föstudags og laugardagskvöldi myndi sá kostnaður tvöfaldast.
Helstu niðurstöður eru því að kostnaður við helgarferð til Alicante næstu helgi er um 160 þúsund krónur en ferð til Akureyrar um 158 þúsund. Ef farið yrði í október myndi ferðin til Alicante kosta um 90 þúsund krónur en ferðin til Akureyrar ríflega 95 þúsund krónur.