Brotastarfsemi tengd fiskveiðum er ekki ný af nálinni og hefur þrifist mikið í tengslum við veiðar við Afríkustrendur. Þangað hafa komið flotar víðs vegar að úr heiminum, frá Evrópulöndum, Rússlandi og Kina, náð undir sig fiskveiðikvótum og ryksugað upp fisk – til að mæta óseðjandi eftirspurn eftir fiskmeti í heimi þar sem fiskistofnum hrakar stöðugt.
Þeir hafa notið þess að eftirlit er lélegt meðfram Afríkuströndum, að auðvelt er að kaupa sig inn í fyrirtæki þar, eignast kvóta – mútugreiðslur eru ríkulegur þáttur í því.
Á heimasíðu Sameinuðu þjóðanna má nú lesa fróðlegan texta sem fjallar um glæpi tengda fiskveiðum og segir þar meðal annars:
„Skipulögð glæpastarfsemi hefur þrifist í fiskveiðigeiranum og notið umtalsverðs refsileysis vegna lítillar áhættu og mikils ágóða annars vegar og óskilvirks löggæslustarfs heimafyrir og á alþjóðavettvangi.”
Á heimasíðunni er einnig vitnað til svokallaðrar Kaupmannahafnaryfirlýsingar um skipulagða glæpastarfsemi í fiskveiðum, hún var gefin út fyrir ári. Noregur, Grænland og Færeyjar eiga aðild að þessari yfirlýsingu – auk Namibíu. Íslands er hins vegar ekki getið. Aðildarríkin eru alls 23. Í yfirlýsingunni segir ennfremur.
„Við erum sannfærð um nauðsyn þess að alþjóðasamfélagið viðurkenni tilvist skipulagðrar glæpastarfsemi þvert á landamæri í hinum hnattræna fikiðnaði og að þessi starfsemi hafi alvarleg áhrif á efnahag, skekki markaði, spilli umhverfinu og grafi undan mannréttindum.”