„Nú fagna ég umræðu um dómsmálið (mitt) og finnst gleðilegt þegar fólk skilur um hvað það snýst. En mér finnst erfitt þegar því er stillt upp við hlið máls Atla Rafns sem á ekkert skilt með mínu. Og í samhengi við hatrammt niðurrif á Þórdísi Elvu.“
Sjá meira: Steinunn Ólína fagnar skaðabótadómi Atla Rafns og gagnrýnir Þórdísi Elvu harðlega
Í kjölfarið hjólar Freyja í Steinunni með þremur punktum þar sem hún tekur greinina hennar í gegn. Freyja gagnrýnir það meðal annars harðlega hvernig Steinunn talaði um Þórdísi Elvu en Steinunn sagði þvælulist (e. manipulation) vera aðalfag Þórdísar. Hún segir að mestu leyti hafi umfjöllunin um málið hennar hafa verið fín.
„En ég verð þó að hnýta í að Barnaverndarstofa á ekki að bjóða mér eðlilega málsmeðferð af því ég er ,,greyið fatlaða konan sem getur ekki eignast börn” og þarf samúð. Ég get eignast börn með hefðbundnum hætti, ekki að það komi neinum við, en kýs að fremur taka börn í fóstur. BVS [Barnaverndarstofa] á að hleypa mér í gegnum ferlið því ég fékk jákvæða umsögn heimilisumdæmis og er verðugur umsækjandi út frá hefðbundnum skilyrðum.“
Freyja bendir á það að konurnar sem upplifðu áreitni og ofbeldi af hálfu Atla Rafns hafi ekki verið að kæra hann til lögreglu.
„Þá væri líklega eðlilegt og nauðsynlegt að þær gæfu sig fram. Þær upplýstu um vanlíðan á vinnustað og í kjölfarið var honum sagt upp störfum. Fólk hefur misst vinnuna fyrir mun minna og af sömu ástæðum og það er ekkert óeðlilegt við það. Hann fékk aðra vinnu. Hann valdi að opinbera þetta sjálfur og fara í mál. Hann hefði alveg geta sleppt því. Þetta er vissulega ömurleg lífsreynsla fyrir alla og flókin en það er ástæða fyrir því að það eru trúnaðarmenn á vinnustöðum. Það er ástæða fyrir því að nafnlausar tilkynningar um ofbeldi eru viðurkenndar. Því það getur verið lífshættulegt að segja frá og það er bara alls ekki skylda brotaþola. Fólk á rétt á því að vera öruggt án þess að þurfa stofna sér í hættu til þess.“
Freyja segir að þegar aktivistar eins Þórdís Elva tjá sig þá séu þau sjaldnast að þykjast vera talsmenn allra. Hún segir það óþolandi að vera sökuð um slíkt fyrir það eitt að taka afstöðu.
„Aktivistar hafa ólíkar upplifanir og skoðanir og reynslu og félagslega stöðu og það má. Og þó svo að aktivistar skrifi bækur og haldi Ted talk fyrirlestur eru þau ekki að markaðsvæða ofbeldi. Er ég þá að markaðsvæða mína lífsreynslu af því að ég hef skrifað bók? Eða að markaðsvæða misrétti af því að ég held úti instagram reikningi til þess að deila reynslu minni af dómsferli? Nei. Það er samt glomma af fólki að markaðsvæða ofbeldi, eigum við kannski að horfa til Hollywood fyrst áður en við jörðum aktivista fyrir að deila reynslu sinni og þekkingu? Við getum alveg tekist á og rökrætt – við eigum að gera það. En þetta er ekki það. Ég tengi til dæmis ekkert við þessar fyrirgefningar pælingar og finnst þær satt best að segja óþægilegar. En miðað við hvernig dómskerfið vinnur úr kynferðisofbeldismálum sbr. Atla Rafn, skil ég mjög vel að brotaþolar fari sumir aðrar leiðir til þess að upplifa réttlæti.“