
„Veit ekki hvernig er best að byrja þetta en allavega ég er 26 ára og atvinnulaus síðan í ágúst. Síðan 2014 er nánast hægt að lýsa lífi mínu eins og manneskju sem er föst í völundarhúsi og ratar ekki út. En 2014 kláraði ég menntaskóla, 2 árum seinna en venjan er. Mín 6 ára menntaskólaganga gekk erfiðlega, ég var krakkinn sem sat einn fremst eða úti horni alla áfangana og læddist meðfram veggjum skólans. 6 ár í vaskinn þar. Sjálfstraustið var 0 og er reyndar enn í dag.
Hann segir að á þessum tíma hafi hann fjarlægst vini sína og sé það ástæðan fyrir því að hann hefur ekki átt vini í núna 10 ár. Hann segir sig vanta háskólamenntun í ferilskrána en hann er brenndur eftir menntaskólaárin.
„Á þessum tíma fjarlægðist ég vini og er ástæðan að maður er búin að vera vinalaus núna í 10 ár. Mig vantar klárlega háskólamenntun í ferilskránna og í dag þegar ég hugsa um að reyna byrja í námi, þá í fyrsta lagi get eg ekki fundið nám sem ég hef áhuga á og sú leit hefur staðið yfir í nokkur ár og í öðru lagi þá er ég ekkert rosalega spenntur að setjast aftur á skólabekk eftir að vera soldið brenndur eftir menntaskólaárin sem ég hef bara ekki jafnað mig á enn. Hef bara verið að vinna undanfarin ár láglaunastörf þangað til í ágúst er ég missti vinnuna. Hef verið að sækja um vinnur núna eiginlega með hálfum hug (því líf mitt núna er ein stór óvissa) sem er kannski ástæða að mér hefur verið hafnað af mörgum vinnuveitendum.“
Hann segist ekki vita í hvorn fótinn hann eigi að stíga, feilspor séu ekki í boði fyrir hann núna þar sem þau yrðu of dýrkeypt.
„Það hræðir mig. Dagar og kvöld líða ansi hægt, mikilvægum tíma sóað fyrir ekkert að mínu mati meðan þunglyndið hellist yfir. Hef reynt að leita hjálpar en það er alltaf sama svarið þ.e. að tala við fjölskyldumeðlim, en þau vita ekkert, kannski gruna smá, því ég er með grímu og fel allt. Þarna sést hvað 0 í sjálfstrausti er vont. Hef einnig þeytt próf sem athugar hvar áhugasvið einstaklings liggja, fólkið sem stóð að því tjáði mér að því miður hafi niðurstöður prófsins verið það lágar að ekki væri hægt að taka neitt marktækt úr því. Það var smá högg en kom mér ekki óvart.“
Eftir að hafa lokið sögu sinni biður hann íslendingana á Reddit um hjálp þar sem hann veit ekki hvað hann á að gera.
„Á ég núna að reyna finna enn eitt láglaunastarfið sem gefur mér enga ánægju, safna pening og reyna flytja loksins út úr foreldrahúsi. Eða fara í nám sem ég hef ekki áhuga á, hópavinna og ritgerðir eru minn veikleiki, hef heyrt að það er víst eitthvað um svoleiðis í háskóla. Á ekkert erindi í verklegt.“
Maðurinn segir í lok færslunnar að hann skilji það ósköp vel ef enginn myndi vilja hjálpa honum en viðbrögðin létu ekki á sér standa. Á örfáum tímum hafði hann fengið fjöldan allan af hjartnæmum athugasemdum frá fólki sem vill hjálpa honum. Það bendir á hvar hann getur leitað sér aðstoðar og margir koma með dæmi frá eigin reynslu.
„Það hljómar eins og að þú sért bullandi þunglyndur, vinur. Það er ekki óalgengt, sérstaklega í svona óvissuástandi og vetrarmyrkri að maður lokast af og sökkvi ennþá dýpra í sjálfsvorkun og volæði. Ég mæli sterklega með að leita þér hjálpar til sálfræðings ef þú getur engan veginn hugsað þér að gleypa stoltið og opna þig við einhvern úr fjölskyldunni.“
„Mjög góðar athugasemdir og ábendingar hérna. Ef ég ætti að bæta einhverju við þá væri það að gera eitthvað einfalt til að byrja með. Líkamsrækt, roleplay, hlusta á podcast um sögu, finna DIY YouTube myndbönd, prófa FabLab, … Bara eitthvað eitt, og ná sjálfstrausti í því verki. Maður finnur nefnilega oft hóp af fólki sem er að gera sömu hlutina og hefur þá eitthvað sameiginlegt til þess að tala um. Þannig byggist upp sjálfstraust tengt einu áhugamáli og félagslegum samskiptum í því tengdu.“
„Ég mæli með Hugarafli. Þú getur verið á endurhæfingarlífeiri meðan þú finnur þig. Tók mig 2 ár þarna og í dag er ég sterkari en ég hef nokkurtíman verið. Sambandið við konuna bjargaðist, fékk góða vinnu sem ég er enn í, líðan mín batnaði og vinir fóru að spretta hægri vinstri í líf mitt. Er orðinn partur af samfélaginu aftur. Þunglyndið horfið, kvíðinn farinn, óvissan er enginn. Ég kom í Hugarafl á seinustu metrunum. Með sjálfsvígshugsanir og algjört vonleisi. Gjörsamlega uppgefinn. Ég mæli með að þú hringir þangað og þau ættu að geta aðstoðað þig.“
„Þú ert ungur, tæplega 10 árum yngri en ég, og átt framtíðina fyrir þér þó þér líði ekki þannig á þessum tímapunkti. Við gerum okkur öll einhverjar hugmyndir um það hvernig líf okkar á eftir að verða þegar við verðum „stór“ og þegar það gengur ekki eftir verðum við fyrir vonbrigðum. Flestir eru með einhverjar háleitar hugmyndir um að þeir séu eitthvað spes en við erum öll jafn (ó)merkileg. Þetta er enn erfiðara í því umhverfi sem við búum við í dag þar sem allir horfa á óraunhæfar bíómyndir eða instagram/fb-statusa sem eru bara einhver glansmynd án innistæðu.“
„Að ganga áfram er mikið betra en að staðna og standa kyrr. Það er engin rétt leið. Finndu leið til að hafa gaman af lífinu. Það er aldrei of seint. Hefur Þú eitthvað stundað íþróttir upp á síðkastið? Ég mæli með að reyna bardagaíþróttir. Hnefaleika eða glímu. Það er mjög aðgengilegt fólki á öllum aldri.“
„Ég hef líka þurft að takast á við lítið sjálfstraust og eftir mörg ár af misheppnuðum tilraunum hef ég komist að því að það eina sem virkar er að gera eitthvað sem manni finnst erfitt. Það þýðir ekki að þú þurfir að byrja á því að stinga þér beint útí djúpu laugina, heldur að taka lítil skref á hverjum degi til að ögra sjálfum þér. Til dæmis eins og að leggja sig aðeins fram í félagslegum aðstæðum og spurja fólk spurninga um daginn og veginn þótt manni finnist það ótrúlega óþæginlegt. En smátt og smátt þroskast þú sem einstaklingur og getur tekist á við fleiri og fleiri hluti og líf þitt mun bara stækka. Þetta kemur alls ekki af sjálfu sér. Maður einn getur tekið ábyrgð á lífi sínu og breytt því til hins betra eða verra, enginn annar.“