

Þjófnaður á fjórum negldum, nýlegum hjólbörðum var tilkynntur til lögreglunnar á Suðurnesjum í vikunni. Eigandinn hafði komið þeim til geymslu í fjölbýlishúsi en þegar til átti að taka voru þeir horfnir.
Þetta kemur fram í skeyti frá lögreglu. Þar segir einnig af stuldi úr verslun í umdæminu. Þar reyndist vera á ferðinni karlmaður sem hafði nælt sér í orkudrykk og pakka af kjúklingalærum sem hann hugðist hafa á brott með sér án þess að borga fyrir. Vettvangsskýrsla var tekin af honum.
Þá hafa um tuttugu ökumenn verið kærðir fyrir of hraðan akstur í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum það sem af er vikunni. Þá voru fáeinir teknir úr umferð vegna gruns um fíkniefnaakstur.
Nokkur umferðaróhöpp hafa orðið en engin þeirra alvarleg né slys á fólki. Þar á meðal var strætisvagni ekið á umferðarskilti og síðan af vettvangi.