Lögreglumaðurinn Bjarni Ólafur Magnússon var í morgun sýknaður af ákærum um líkamsmeiðingar af gáleysi fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Héraðssaksóknari ákærði Bjarna í janúar vegna atviks sem átti sér stað í maí 2018.
Forsagan er sú að Ingvar Örn Karlsson, frambjóðandi á lista Nýs Afls í Bláskógabyggð til sveitarstjórnarkosninga, gekk berserksgang á tveggja tonna gröfu í Biskupstungum. Hann ók síðan öfurölvi burtu á bíl og veitti lögregla honum eftirför. Lögregla taldi nauðsynlegt að beita lögreglubíl til að stöðva akstur Ingvars. Í ákæru á hendur Bjarna segir að hann hafi ekið þrívegis á vinstra afturhorn bifreiðar Ingvars á allt að 95 kílómetra hraða.
Við ákeyrsluna hálsbrotnaði Ingvar og hlaut stóran skurð inn að höfuðkúpu.
Lögreglan greindi svo frá ákærunni á heimasíðu sinni í janúar á þessu ári:
„Lögreglumaður í lögreglunni á Suðurlandi sætir nú ákæru héraðssaksóknara vegna slyss sem varð þegar bifreið sem ölvaður ökumaður ók var, með lögreglubifreið, þvinguð út af Þjórsárdalsvegi í maí í fyrra og valt. Við slysið hlaut ökumaður umræddrar bifreiðar m.a. beinbrot. Lögregla býr við það að sæta skoðun á störfum sínum af hálfu ákæruvalds og eftir atvikum dómstóla í öllum sínum verkum. Það er hinn eðlilegi farvegur þessara mála innan þess réttarvörslukerfis sem lýðræðið byggir á. Yfirstjórn embættisins hefur farið yfir málið og mat hennar er að þrátt fyrir útgáfu ákærunnar sé ekki tilefni til að breyta eða færa starfsvettvang viðkomandi starfsmanns með neinum hætti meðan á meðferð málsins stendur fyrir dómi. Embættið mun að öðru leiti en þessu ekki tjá sig um málið meðan á meðferð þess stendur fyrir dómstólum.”
Lögreglumaðurinn Bjarni Ólafur Magnússon greindi Facebook-vinum sínum frá því í gærkvöld að dómur yrði kveðinn upp í morgun. Bað hann um stuðning í réttarsalum:
„Eins og mörgum ykkar er kunnugt um var ég, í byrjun þessa árs, ákærður af héraðssakssóknara fyrir að hafa stöðvað akstur ölvaðs ökumanns með því að aka hann út af vegi. Nú er komið að því að kveðinn verði upp dómur í málinu en það verður á morgun kl.09:15 í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Ég hef fengið mikinn og góðan stuðning sem hefur gefið mér trú og kraft.
Það væri mér afar verðmætt ef einhver ykkar, sem eigið heimangengt, mynduð láta sjá ykkur.
Með þökk, Bjarni.”
Það var mat lögreglumanna að nauðsynlegt væri að stöðva akstur Invars þar sem hann væri hættulegur umhverfinu með aksturslagi sínu. Var þetta gert með samþykki varðstjóra. Bjarni hefur þjálfun í notkun þeirrar aðferðar sem beitt var, þ.e. að aka á bíl Ingars. Að mati dómsins var eðlilega staðið að verki.
Í niðurstöðu dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í morgun segir að það sé mat dómsins að ákæruvaldið hafi ekki sýnt fram á það að ákærði hafi ekki gætt lögmætra aðgerða í lögregluaðgerðinni. Aðgerðin hafi verið unnin í samræmi við meginreglur. Beri því að sýkna Bjarna af ákærum og skal allur sakarkostnaður, þar á meðal málsvarnarlaun til lögmanns Barna, Vilhjálms Vilhjálmssonar, sem er vel yfir þrjár milljónir króna, greiddur úr ríkissjóði.