Sirrý Valdimarsdóttir deilir innan Facebook-hópsins Keypt í Costco sögu af strangheiðarlegum viðskiptavini í Costco. Stjúpsonur hennar á fermingaraldri hafði farið með fermingarpeninginn sinn í Costco og hugðist kaupa þar farsíma.
Svo fór að seðlarnir duttu úr vasa drengsins. „Þú elsku engill sem skilaðir inn seðlabúnti sem datt úr vasa fermingarbarns fyrir utan Costco áðan. Hjartað slær ört af þakklæti,“ skrifar Sirrý á Facebook.
Í samtali við DV segir Sirrý því miður ekki vita hvaða viðskiptavinur Costco var svo heiðarlegur. „Því miður vitum við bara að það var kona sem kom skjálfandi með peninginn í höndunum. Þetta var einungis 76.000 en það er hellingur fyrir 13 ára dreng í símakaupshugleiðingu,“ segir Sirrý.
Hún segist ofboðslega þakklát konunni. „Góð áminning að það er mikið af góði fólki til.“