
Tilkynnt hefur verið um röskun á flugi í dag vegna slæms veðurs á Keflavíkurflugvelli. Vindur hefur farið hátt í 30 metra á sekúndu og er því ekki hægt að nota landgöngubrýr til að koma farþegum frá borði. Þeir sitja því fastir um borð.
DV náði sambandi við mann sem kom til landsins með vél Easyjet frá Kaupmannahöfn ásamt ungum syni sínum. Vélin lenti kl. hálfníu í morgun en núna laust fyrir klukkan 11 sitja farþegar enn fastir um borð og hefur þeim verið tilkynnt um að frekari bið verði. Að sögn mannsins fer þokkalega vel um farþega en nokkurs pirrings gætir meðal þeirra. „Vélin vaggar hérna til og frá,“ segir maðurinn og verða farþegar mikið varir við vonda veðrið.
Öllum brottförum frá Keflavíkurflugvelli hefur verið frestað til klukkan hálftólf. Frekari seinkanir á þeim flugferðið gætu orðið. Veðrið mun ganga niður eftir því sem líður á daginn.