Rétt fyrir klukkan sex í morgun var tilkynnt um grunsamlegar mannaferðir í miðbænum. Maður einn var að burðast með ferðatösku á milli staða. Við leit lögreglu fannst ferðataskan yfirgefin en maðurinn ekki, en hann hafði stolið töskunni af ferðamanni skömmu áður. Ferðamaðurinn endurheimti því ferðatöskuna en hann var á heimleið og hélt því sáttur heim á leið. Ekki var að sjá að neitt hafi verið tekið úr töskunni.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Þar segir einnig stuttlega frá vinnuslysi á hóteli í hverfi 108, en tilkynning barst um tíuleytið í morgun. Starfsmaður rann til en ekki er vitað um meiðsli hans.