Ökumaður sem lögreglan á Suðurnesjum stöðvaði á Sandgerðisvegi á dögunum á von á 210 þúsund króna sekt, sviptingu ökuleyfis í einn mánuð og þremur punktum í ökuferilsskrá. Í skeyti frá lögreglu kemur fram að bifreið mannsins hafi mælst á 149 kílómetra hraða, en hámarkshraði þarna er 90 kílómetrar á klukkustund.
Tæplega þrjátíu ökumenn hafa verið staðnir að hraðakstri í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum að undanförnu. Einn þeirra var auk þess með of marga farþega í bifreiðinni og var hann kærður fyrir það brot einnig.
Þá voru fáeinir teknir úr umferð vegna gruns um ölvunar- eða fíkniefnaakstur og skráningarnúmer fjarlægð af nokkrum bifreiðum sem voru ótryggðar eða óskoðaðar.