Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingkona Pírata, var um borð í vél Icelandair sem bilaði í háloftunum í morgun. Flugvélin var leið til Zürich en annar hreyfill vélarinnar bilaði og þurfti vélin því að snúa til baka.
Þórhildur segir á Facebook að henni hafi verið nokkuð brugðið en hún gagnrýnir jafnframt flugfélagið. „Ég var að lenda mjúkri nauðlendingu à Keflavíkurflugvelli eftir að slökkva þurfti á hægri hreyfli á flugvél Icelandair til Zürich. Ég er þakklát flugmanninum fyrir að komið okkur á jörðina heil á höldnu og áhöfninni fyrir að hafa haldið ró sinni þrátt fyrir augljósa hættu,“ skrifar Þórhildur.
Hún segir að við lendingu hafi enginn tekið á móti farþegum. „Ég skil hins vegar alls ekki hvernig Icelandair getur látið það eiga sig að taka á móti okkur við endurkomu í flugstöðina með upplýsingar um næstu skref. Ég var að heyra það núna, klukkutíma efir nauðlendingu að við fáum nýja vél kl 10. Það er í sjálfu sér fínt en mér finnst þetta vond þjónusta og gestrisni við fólk sem upplifði eflaust sama ótta og ég við að frétta að við værum að fara að nauðlenda á einum hreyfli. En ég er semsagt góð bara,“ segir Þórhildur.