„Við vorum nýbúin að fjárfesta í hjólunum okkar og erum algjörlega miður okkar. Þetta er fullkomlega ömurlegt,“ segir Þórey Ólafsdóttir. Hún býr í Vesturbænum ásamt eiginmanni sínum. Síðdegis í gær fór óprúttinn aðili inn í bakgarðinn að heimili þeirra, stal reiðhjóli mannsins hennar og framdekkinu að hjóli Þóreyjar.
Myndir náðust af athæfinu á öryggismyndavélum og hefur Þórey birt þær á Facebook. Myndirnar fylgja hér en andlit mannsins er hulið. Hjólin voru læst saman.
„Það þyrfti að efla nágrannavörslu og jafnvel setja upp eftirlitsmyndavélar í hverfinu því þetta er orðinn faraldur, hjólastuldur og innbrot í bíla. en við höfum sem betur fer ekki lent í innbroti í bílana okkar,“ segir Þórey. Hún segir til lítils að stuðla að auknum hjólreiðum í borginni ef hjólunum sé síðan bara stolið.