

„Ég fór bitur og klökkur úr veislunni, laug því til að mér væri illt í maganum, pantaði leigubíl og vildi engan við tala, fór bara heim til mín og lagðist upp í sófa.“
Þetta segir sjávarútvegsfræðingurinn Svavar Guðmundsson í athyglisverðri grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Svavar er lögblindur og í greininni skrifar hann um upplifun sína af því að vera lögblindur einstaklingur innan um annað fólk. Af skrifum Svavars að dæma er augljóst að hann upplifir sig stundum einangraðan og nefnir hann dæmi máli sínu til stuðnings. Segir hann það skipta lögblinda einstaklinga miklu máli að vera heilsað og við þá sé talað. „Annars líður okkur eins og verið sé að hunsa okkur,“ segir hann.
Svavar bendir á að það feli í sér einhvers konar virðingu að heilsa. „Í athöfninni að heilsa felst mikilvægi virðingar í samskiptum; öll viljum við vera virt og vera auðsýnd tilhlýðileg virðing. Að heilsast og vera heilsað er ein birtingarmynd örlítillar væntumþykju og virðingarvotts.“
Svavar segir að eitt af því sem hann hefur upplifað undanfarin ár sem lögblindur einstaklingur er hvað margir nota sjónskerðingu hans til þess eins að sleppa því að heilsa. Til að gæta allrar sanngirni segir Svavar að aðrir beri af, kynni sig að fyrra bragði með eigin nafni. Þetta eru einstaklingar með yfirburða samskiptagreind, segir Svavar, en því miður séu þeir í minnihluta.
„Það er eins og margt fólk álíti blindan einstakling öðruvísi og að það þurfi eitthvert sérstakt umræðuefni þar sem maður er lögblindur til þess að nálgast mann. Við erum ekkert öðruvísi; við heyrum, hugsum, tölum og skynjum, en við sjáum mjög illa eða ekki neitt. Það er því óþarfi að vera vandræðalegur eða feiminn því síst af öllu viljum við láta vorkenna okkur.“
Svavar nefnir svo dæmi sem hann hefur upplifað úr skírnar-, afmælis- og útskriftarveislum. „Ég hef verið í skírnar-, afmælis- og útskriftarveislum, í raun öllum tegundum af fagnaði. Ég er ekki í þessum veislum af því ég er ókunnugur fólkinu, en ég hef oft spurt einhvern nákominn hvort hinn og þessi sé ekki eða hafi verið í veislunni? Jú, jú, allir voru þar en ég varð þess ekki áskynja því ég sé ekki fólkið og finnst því oft súrt í broti að hafa ekki verið heilsað af „vini“ eða ættingja.“
Svavar segir að rúmu hálfu ári eftir að hann varð lögblindur hafi hann farið í skírnarveislu þar sem um hundrað manns voru mættir.
„Ég sat einn á borði sem mér hafði verið fylgt að og var með áberandi sólgleraugu þar sem ég þoli illa birtu. Mér fannst skrýtið að enginn skyldi setjast við borðið mitt, blinda er ekki smitandi og ég var ekki með farsótt.“
Svavar segist telja að þrjár til fimm manneskjur hafi heilsað honum þó hann hafi þekkt og vitað um mætingu helmings veislugesta. „Mér leið hræðilega illa í þessari veislu, að sjá ekki þá sem ég þekkti og vera ekki heilsað af þeim. Ég fór bitur og klökkur úr veislunni, laug því til að mér væri illt í maganum, pantaði leigubíl og vildi engan við tala, fór bara heim til mín og lagðist upp í sófa,“ segir hann.
Svavar segist vera orðinn vanari þessu nú, að vera einungis heilsað af broti minnihlutans. Þessu sé þó öfugt farið í veislum þar sem áfengi er haft við hönd. Þá gefi sig flestir á tal við hann því þá séu þeir búnir að drekka í sig hugrekkið.
„Það er ekki gott fyrir sálina að vera hornreka í mannfagnaði. Maður upplifir sig afskiptan, á erfitt með að bæta úr því eða vera fyrri til að heilsa vegna blindunnar. Það getur oft fylgt sjónmissi einum og sér mikill einmanaleiki og því bætir það gráu ofan á svart að vera ekki heilsað og að vera sniðgenginn og hunsaður. Við sem blind eða lögblind erum einkennum okkur langoftast með hvíta stafnum eða barmmerki. Við skynjum umhverfið á okkar hátt og við getum hugsað, talað og heyrt og svo miklu meir en það.“
Svavar nefnir svo annað dæmi, til dæmis þegar hann er með annarri manneskju til dæmis á kaffihúsi. Þá er viðkomandi spurður hvernig kaffi Svavar vill, í stað þess að beina spurningunni til Svavars.
„Það er ábending til alsjáandi að spyrja blinda fólkið hvað það vill, ekki spyrja aðra þeirrar spurningar – það er tilfinningalegt taktleysi. Ímyndaðu þér að flestir samferðamenn sem fram hjá þér fara myndu aldrei heilsa þér; hvorki heilsa né kasta á þig kveðju, fyrir þig sem ert alsjáandi myndi það nú reynast frekar einmanalegt og tómlegt líf,“ segir Svavar sem ítrekar mikilvægi þess að lögblindum einstaklingum sé heilsað og við þá talað.
„Gott og nauðsynlegt er að segja til nafns þegar blindum/lögblindum er heilsað og auðvitað að fyrra bragði.
Sæll Svavar, þetta er Siggi frá Þúfu.
Sæll Svavar, Þetta er hún Guðrún frá Hóli.
Verum fyrri til og heilsum hvert öðru.“