Það vakti þó eflaust athygli margra að Sigmundur kom ekki fram undir sínu fulla nafni í viðtalinu. Hann kom fram sem „David Gunnlaugsson“ en einhverjir hafa verið að velta því fyrir sér hvers vegna hann var ekki titlaður með sínu fulla nafni.
Það er algengt að Íslendingar noti önnur nöfn utanlands þegar nöfn þeirra eru til dæmis óþjál fyrir útlendinga eða eru skrifuð með íslenskum stöfum. Nafnið Sigmundur inniheldur þó enga íslenska stafi og nafnið verður seint talið óþjált.
Margrét Tryggvadóttir, fyrrverandi þingmaður, hefur sínar hugmyndir um ástæðuna fyrir titli Sigmundar en hún talaði um málið á Facebook-síðu sinni. Hún telur að Sigmundur hafi sleppt Sigmundar nafninu svo það sé erfiðara fyrir heimspressuna að leita að upplýsingum um hann á netinu.
„Nú getur vel verið að hann hafi notað nafnið David þegar hann var í náminu dularfulla í Bretlandi en sem stjórnmálamaður heitir hann ekki David Gunnlaugsson heldur Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Hugsanlega er niðurstaðan í gúggli á því nafni í heimspressuni David þessum ekki nægilega hagstæð – og þá breyta menn bara um nafn.“