„Þetta er auðvitað með hreinum ólíkindum. Einhver tilfallandi borgarstjórnarmeirihluti ætlar að þvinga börn til að framfylga vægast sagt umdeildum kenningum í næringarfræði og umhverfisvernd. Þetta er Reykjavík – ekki Austur-Berlín fyrir hrun múrsins.“
Þetta segir Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis, í athugasemd undir færslu sem Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borginni, skrifaði í gærkvöldi.
Sjá einnig: Deilur kjötæta og grænkera á Íslandi harðna: „Notum bara alvöru íslensku, þetta lið heitir siðblindingjar“
Um fátt hefur verið meira rætt undanfarinn sólarhring en deilur kjötæta og grænkera. Eins og DV greindi frá í gær eru kjötætur æfar yfir því að Reykjavíkurborg hyggist skoða það að minnka framboð á dýraafurðum í grunnskólum borgarinnar.
Eyþór Arnalds tjáði sig um málið í gærkvöldi og sagði að flestir gætu verið sammála því að skólamatur í Reykjavík gæti verið betri. „En í stað þess að bæta matinn í grunnskólum ætla fulltrúar „meirihlutans“ í borgarstjórn að skerða prótíninnihald fyrir reykvísk skólabörn,“ segir Eyþór og bætir við að spara eigi kjöt og fisk fyrir börn í nafni umhverfisverndar.
„Nú er það svo að best er að borða úr sínu nærumhverfi. Og það vill svo til að fiskur og kjöt á Íslandi er í sérflokki. Nei ef vinstri menn í borgarstjórn vilja minnka kolefnisfótsporið væri við hæfi að þeir byrjuðu á sjálfum sér. En létu börnin okkar fá góðan og fjölbreyttan mat,“ sagði Eyþór í færslu sinni.