„Framkoma af þessu tagi ber vott um skort á sjálfsvirðingu og þá einnig sjálfstrausti því sá sem hefur það til að bera kemur ekki fram með þessum hætti,“ segir Guðni Ágústsson, fyrrverandi ráðherra og þingmaður, í grein sem hann skrifar í Morgunblaðið í dag.
Guðni, sem sat á þingi fyrir Framsóknarflokkinn í rúm tuttugu ár, virðist ekki vera sáttur við suma af þeim þingmönnum sem nú eiga sæti á Alþingi. Gagnrýnir hann framkomu þeirra í garð gesta sem kallaðir eru fyrir nefndir vegna ýmissa mála, til dæmis Orkupakkamálið.
„Nú ber nýrra við á hinu háa Alþingi, fregnir berast af því að þingmenn hlaðnir eldmóði að klára þriðja Orkupakkann rífist við gesti sína og skammi þá fyrir að hafa móðgað sig með röngum skoðunum að þeirra mati. Sú var tíðin að mikilvægt þótti eins og enn í nefndarstarfi Alþingis að fá fram með- og mót-mælendur til að fjalla um kost og löst á þingmálum. Muni ég þetta rétt komu gestir og fluttu sitt mál og sátu svo og svöruðu oft skeleggum spurningum þingmanna um málið en öll efnisleg umræða eða rökræða fór fram milli þingmanna eftir að gestir hurfu af fundi,“ segir Guðni.
Hann segir að nú berist fregnir af því að nánast sé ráðist að gestum með svigurmælum [móðgandi orðum, innsk.blm], þeir sagðir móðga háttvirta þingmenn með „heimsku“ sinni og andstyggilegt sé að hlusta á málflutning þeirra.
„Svona framkoma er ekki boðleg en um þetta hafa borist fréttir í sumar og þingmenn ráðist að gestunum í fjölmiðlum eftir fundina eða á fasbókinni. Þetta eflir ekki virðingu Alþingis eða auðveldar þá mikilvægu vinnu sem Alþingi er falin, að hlusta á öll rök með og móti og leiða mál til lykta. Framkoma af þessu tagi ber vott um skort á sjálfsvirðingu og þá einnig sjálfstrausti því sá sem hefur það til að bera kemur ekki fram með þessum hætti. Mig minnir að umdeild mál lentu oft í frysti og frekari vinnslu en nú er öldin önnur „vér einir vitum“ og umræðu er lokið og skítt með þjóðina, hún veit ekkert.
Guðni rifjar svo upp Icesave-málið. „Megnið af þingheimi ályktaði gegn almannaviljanum þar og varð tvisvar undir í þjóðaratkvæðagreiðslu og svo vann Ísland málið fyrir EFTA-dómstólnum. Íslenska ríkið var sýknað af öllum kröfum ESA. Mikill meirihluti á Alþingi er því ekki vissa um sanngjarna niðurstöðu eða rétta, ekki einu sinni að niðurstaðan standist dómstólameðferð,“ segir Guðni sem vinur sér svo að sjálfu orkupakkamálinu sem hann hefur sterkar skoðanir á.
„Orkupakkamálið er svo vanreifað að það er skylda Alþingis að taka það til endurskoðunar, bæði vegna almannaviljans og ekki síður vegna þess að hina færustu sérfræðinga greinir á um afleiðingar málsins. Farsæll stjórnmálaleiðtogi keyrir aldrei svona umdeilt mál áfram. „Víðar er Guð en í Brussel.“ Og margir telja að þar snúist allt um markaðinn og dansinn kringum gullkálfinn. Fólkið vill ekki ana út í ófæru, tilfinningin er sú að það sé að gerast og rökræðan er meingölluð og málið ekki tilbúið til lokaafgreiðslu á Alþingi því almennt segir fólkið eins og einn oddviti ríkisstjórnarflokkanna sagði svo eftirminnilega: „Hvað í ósköpunum liggur mönnum á að komast undir sameiginlega raforkustofnun Evrópu á okkar einangraða landi með okkar eigið raforkukerfi? Hvers vegna í ósköpunum hafa menn áhuga á því að komast undir boðvald þessa stofnana?“
Guðni segir að þarna liggi hundurinn grafinn, um 75 prósent fólks sé þarna statt og reiðin kraumi í ríkisstjórnarflokkunum. „Hvað gerist eftir 2. september n.k.? Verður niðurstaðan ögrun við þjóðina, lýðræðið og við almenna skynsemi. Stopp, kjörnir fulltrúar Alþingis, gefið tíma og andrúm!“