Lögreglan á Suðurlandi hafði hendur í hári ökumanns á Suðurlandsvegi nærri Hvolsvelli í liðinni viku. Bifreið mannsins mældist á 168 kílómetra hraða. Samkvæmt sektarreikni á vef Umferðarstofu á ökumaðurinn von á 240 þúsund króna sekt og sviptingu ökuréttinda í þrjá mánuði.
Alls voru 110 ökumenn stöðvaðir í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi í síðustu viku fyrir of hraðan akstur.
Átta voru stöðvaðir fyrir akstur undir áhrifum áfengis og fimm var gert að hætta akstri þar sem ökuréttindi þeirra reyndust útrunnin.
Níu ökumenn voru kærðir fyrir að nota farsíma við akstur án þess að nota handfrjálsann búnað. Þar að auki voru sex ökumenn kærðir fyrir að nota ekki öryggisbelti við aksturinn. Tveir ökumenn voru stöðvaðir í akstri þar sem bifreiðar þeirra voru ekki vátryggðar og var þeim gert að hætta akstri og voru skráningarmerki bifreiðana fjarlægð.
Tíu minniháttar umferðaróhöpp voru tilkynnt lögreglu. Minniháttar meiðsli urðu á fólki í þessum óhöppum. Lögregla hvetur ökumenn til að huga að bili milli ökutækja sem og að hafa óskipta athygli við aksturinn.