fbpx
Laugardagur 23.ágúst 2025
Fréttir

Íbúar í Skerjafirði uggandi og minnast skelfilegs banaslyss

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 2. júlí 2019 20:00

Samsett mynd sýnir Strætisvagn og Suðurgötu og tengist frétt ekki beint

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ugg hefur sett að mörgum íbúum Skerjafjarðar vegna áforma um að skerða eða leggja niður akstur skólabíla í ýmum hverfum borgarinnar. Íbúar minnast skelfilegs atburðar sem varð snemma hausts árið 1990 þegar sjö ára stúlka lét lífið í bílslysi á Suðurgötu er hún var að koma út úr strætisvagni. Stúlkan hljóp fram fyrir strætisvagninn og í veg fyrir bíl en umferð er oft mikil og hröð á þessum hluta Suðurgötunnar.

Eins og kemur fram í frétt Morgunblaðsins í gær hefur verið samþykkt að nemendur í grunnskólum borgarinnar, sem búa í meira en 1,5 km fjarlægð frá hverfisskóla sínum, fái ókeypis strætókort. En svo virðist sem þetta verði fjármagnað með sparnaði í skólaakstri sem nemur um 16 milljónum króna og verður skólaakstur aflagður í nokkrum hverfum. Nýju reglurnar eiga að taka gildi í upphafi næsta skólaárs, sem er í lok ágúst.

Þegar slysið varð árið 1990 var aðeins í boði skólaakstur aðra leiðina. Í kjölfar harmleiksins varð hins vegar í boði skólaakstur báðar leiðir í hverfinu. Núna eru blikur á lofti um að skólaakstur inn í Skerjafjörð vegði lagður niður.

Slysið frá 1990 hefur nokkuð verið rifjað upp í íbúahópum Skerjafjarðar á Facebook og meðal þeirra sem hafa tekið virkan þátt í þeim umræðum er Ásdís Elva Pétursdóttir grunnskólakennari. Hún segir í samtali við DV að grátlegt sé að þurfa að rifja þetta mál upp – en nauðsynlegt:

„Það er mikilvægt að minna á mikilvægi þess að gæta sín á þeim aðstæðum sem þarna eru.Við kennarar reynum alltaf að passa upp á að börnin komist heil á húfi í og úr skóla og bara ferð í gegnum litlar og rólegar götur getur verið nógu flókið verkefni fyrir yngstu börnin, ég tala nú ekki um stórar umferðargötur eins og Suðurgatan. Og umferð þar á bara eftir að þyngjast ef áform um framkvæmdir í hverfinu ganga eftir.“

Hún segir að vissulega sé jákvætt að eldri börnin fái frítt strætókort sem meðal annars muni nýtast þeim í ferðir í tómstundir og íþróttir: „En hvað yngri börnin varðar þá keyra foreldrar þau hvort eð er í tómstundir,“ segir Ásdís Elva.

 „Skil áhyggjur foreldra“


Í Facebook-umræðum um málið lýsir Skúli Helgason, borgarfullrúi Samfylkingarinnar, sig mótfallinn tvöföldu kerfi skólaaksturs og strætós. Hann skilur hins vegar áhyggjur foreldra:

„Ég er mjög hlynntur þeirri breytingu að leggja niður strætómiðakerfið til og frá skóla og bjóða viðkomandi nemendum sem búa lengra en 1,5 km frá sínum hverfisskóla frítt strætókort sem þeir geta notað hvar og hvenær sem er, allt árið um kring. Það getur verið ágætis búbót fyrir viðkomandi fjölskyldur á sama tíma og við gætum jafnræðis alls staðar í borginni með samræmdum viðmiðum varðandi fjarlægðarmörkin.

Á sama hátt styð ég þá meginreglu að nýta hið almenna strætókerfi í stað þess að vera með tvöfalt kerfi strætó og skólaaksturs og það er spennandi að nýta það tækifæri til að fræða börnin um strætókerfið og hvernig megi nýta það til að komast á milli staða.

Ég skil hins vegar mjög vel áhyggjur foreldra varðandi öryggismálin og við munum skoða vandlega hvernig við getum komið til móts við þau sjónarmið. Þar munum við t.d. kanna vandlega leiðir eins og að bjóða fylgd milli Suðurgötu og Melaskóla fyrir yngstu börnin, auka enn frekar öryggi umferðarmannvirkja t.d. með hraðatakmörkunum, og jafnframt taka upp viðræður við forsvarsmenn Strætó um möguleika á því að breyta akstursleið vagns nr. 12 til að stytta vegalengd nemenda að Melaskóla.

Slíkar mótvægisaðgerðir eru að mínu viti mjög mikilvægar til að til að mæta kröfum foreldra um öryggi barna sinna. Við viljum nýta tímann í haust til að útfæra nákvæmlega þessar mótvægisaðgerðir og kynna þær vel fyrir nemendum og foreldrum áður en breytingar taka gildi um áramótin.“

Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir flokkinn hafa lagt fram tillögu um að ákvörðun þess efnis að hætta skólaakstri í hverfinu verði frestað. Sú tillaga hafi því miður verið felld. María ritar:

„Samþykkt var í skóla- og frístundaráði í síðustu viku að vísa tillögu um að hætta skólaakstri til borgrráðs til endanlegrar ákvörðunar. Við sjálfstæðismenn í skóla- og frístundaráði lögðum fram tillögu um að þessari ákvörun yrði frestað þannig að foreldum gæfist tækiæri á að veita umsögn um hana og koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Því miður var sú tillaga felld.“

Bókun Sjálfstæðisflokksins um málið er eftirfarandi:

„Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks telja að betur hefði mátt standa að kynningu á breytingum á reglum á afhendingu strætókorta til nemenda í grunnskólum. Breytingin snertir alla foreldra skólabarna sem málið varðar. Umsagnir skólaráða og foreldrafélaga gefa ágæta mynd en eru ekki trygging fyrir því að allir foreldrar séu upplýstir um breytingarnar og hvaða áhrif þær hafa. Akstur með skólabílum fyrir börn sem búa í lengri fjarlægð en 1,5 km. frá skóla verður aflagður og sýnt að það muni hafa mikil áhrif á ferðir skólabarna. Í ljósi athugasemda frá nokkrum skólum þykir rétt að skoða málið nánar og leyfa umsögnum allra hagsmunaaðila að koma að áður en reglurnar verði endanlega samþykktar, slíkt hefði verið í anda íbúalýðræðis og samráðs.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Þórdís Kolbrún sár út í Ragnar: „Ákaflega ógagnlegt og ámælisvert”

Þórdís Kolbrún sár út í Ragnar: „Ákaflega ógagnlegt og ámælisvert”
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Lífið í fangelsinu enginn dans á rósum fyrir morðingjann

Lífið í fangelsinu enginn dans á rósum fyrir morðingjann