Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann í 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir fíkniefna- og hegningarlagabrot.
Maðurinn var ákærður fyrir að hafa í desember 2017 kastað posa í konu á veitingastaðnum Eldsmiðjunni. Ekki kemur fram í dómi hvort konan hafi verið viðskiptavinur staðarins eða starfsmaður. Posinn lenti í vinstri handlegg hennar og fékk hún marblett í kjölfarið.
Þá var maðurinn ákærður fyrir að hafa í vörslu sinni rúm tvö grömm af marijúana þegar lögregla hafði afskipti af honum í umrætt sinn. Loks var hann ákærður fyrir þjófnað úr verslun Nettó í apríl síðastliðnum en hann stal matvöru að söluverðmæti 19.689 krónur.
Maðurinn játaði brot sín skýlaust fyrir dómi en hann hefur hlotið nokkra dóma vegna hegningarlagabrota, síðast árið 2011. Við ákvörðun refsingar var litið til skýlausrar játningar hans og þess að hann lauk vímuefnameðferð eftir þjófnaðinn í Nettó.
Fangelsisdómurinn yfir manninum er skilorðsbundinn til tveggja ára.