Björn Stefánsson, sem er oft kallaður Bjössi í Mínus, er leikari, þungarokkari, trommari og fjölskyldumaður. Hann stóð á miklum tímamótum þegar Mínus-tímabilinu lauk og neyddist hann þá til að breyta lífi sínu. Nú hefur hann verið edrú í áratug og hefur leiklistarferilinn komist á öflugt ról að undanförnu. Í einlægu viðtali við Morgunblaðið segir hann edrúmennskuna hafa markað upphafið að einhverjum bestu árum sem hann hefur lifað.
„Mjög snemma á tímum Mínusar var ég farinn að spyrja sjálfan mig af hverju ég gæti ekki drukkið eðlilega; hætt eftir tvo bjóra. Þetta bara ágerðist og konan mín var farin að setja mér stólinn fyrir dyrnar og segja mér að þetta væri ekki í lagi. Ég skil hana alveg núna og þarna vorum við komin með barn. En þegar ég drakk skildi ég hana ekki; fannst ég ekki vera að skemma neitt, mætti í vinnu og var duglegur. En hún fékk bara nóg og sagðist vera að fara til Danmerkur. Ég reyndi að halda mér edrú en það gekk ekkert,“ segir Björn og bætir þá við hvernig lífið tók við miklum breytingum. „Svo fékk ég uppljómum; gat ekki lengur verið að þykjast vera þessi duglegi maður en var svo í raun að fara þunnur með barnið í skólann.“
Þegar Björn er spurður hvar og hvenær botninum var náð segir hann það hafa gerst í einkapartíi á B5. „Ég fór inn á baðið í annarlegu ástandi og horfði á mig í speglinum og á þeirri stundu vissi ég að þetta væri orðið gott. Nú yrði ég að hætta. Ég fann það svo sterkt. Maður hafði oft hugsað það áður, þetta er orðið gott, en alltaf haldið áfram,“ segir Björn.
„En í þetta sinn var það öðruvísi. Ég labbaði fram og hitti vin minn og sagði honum að ég væri hættur. Honum fannst það bara fyndið. Ég hringdi líka í konuna og sagði henni að ég væri hættur. Fyrsta árið héldu allir að ég væri að grínast, en síðan eru liðin tíu ár.“
Björn hætti að drekka og flutti þá til Danmerkur á eftir konunni sinni. Hann fór ekki í meðferð en hefur unnið mikið í sínum málum. „Ég fékk bara nóg og fékk hjálp frá góðum vinum. Það hvarflar ekki að mér að byrja aftur því ég veit hvar ég mun enda. En þetta var alveg erfitt,“ segir Björn.
„Maður klárar hluti. Ég er að vinna í leikhúsinu og get þakkað það edrúmennskunni. Ég þakka líka umburðarlyndi konu minnar! Ég sá fyrir mér að það myndi allt fara í vaskinn en það gerðist sem betur fer ekki og nú eigum við von á okkar þriðja barni. Fyrir eigum við þrettán ára stelpu og sjö ára strák. Það er gaman að hafa líf á heimilinu og ég er svakalega heimakær. Síðustu tíu ár hafa verið þau bestu sem ég hef lifað.“
Undanfarin ár hefur Björn verið áberandi í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum, en hann rifjar upp eftirminnilegt atvik sem átti sér stað við tökur á glæpamyndinni Austur frá 2015. „Meðleikari minn missti mig óvart á steingólf og ég rotaðist og fékk heilahristing. Ég var næstum dáinn. Þetta var fáránlegt. Þetta gerðist í senu þar sem hann heldur á mér; ég var í haldi. Ég var með koddaver á höfðinu og hann labbaði niður tröppur og misstígur sig. Hann missir mig fram fyrir sig þannig að ég dett með andlitið beint á steingólfið. Ég var frá í heila viku,“ segir Björn.
Í kjölfar þessa heilahristings fór Björn að upplifa afar sérkennilegan hlut; „Jamais vu,“ sem er öfugt við fyrirbærið Déjà vu. „Þetta gerist þegar maður fær höfuðhögg. Stuttu eftir slysið var ég í bílnum og ABBA hljómar í útvarpinu. Heilinn í mér sagði mér að þetta væri í fyrsta sinn sem ég heyrði ABBA. Íris kemur inn í bílinn og ég var alveg heillaður af laginu og segi henni að hlusta. Ég sagði henni að þetta væri geðveikt lag! Sem mér fannst ég ekki hafa heyrt áður,“ segir Björn.