Eftir Kolbrúnu Bergþórsdóttur:
Ný ríkisstjórn, sem virtist ætla að verða helst til verklítil, hristi af sér slenið og aflétti höftum og er það vel gert. Sú gjörð er eðlilegt framhald af verkum ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem rétt er að hrósa fyrir að hafa viðhaldið efnahagslegum stöðugleika. Vonandi heldur núverandi ríkisstjórn jafn vel á spöðunum.
Vantraust á stjórnmálamönnum er grasserandi hér á landi, líkt og svo víða annars staðar, en ósanngirni má ekki taka öll völd. Þjóðin er búin að vinna sig upp úr hruninu og þar lögðu stjórnmálamenn úr hinum ýmsu flokkum sitt af mörkum til góðs. Það þarf hins vegar að halda áfram að standa vaktina svo ekki verði hér skyndileg kollsteypa sem veki verðbólgudrauginn til lífs á ný.
Hin mikla styrking krónunnar hefur verið slæm fyrir útflutningsatvinnugreinarnar en komið almenningi vel. Fulltrúar ríkisstjórnarinnar hafa verið afskaplega duglegir að lýsa yfir áhyggjum vegna hinna vondu áhrifa sem styrking gjaldmiðilsins hefur á þessar greinar. Að sama skapi hafa þeir ekki verið viðlíka duglegir að tala máli hins almenna neytanda sem sannarlega á að njóta góðs af góðærinu. Auðvitað eiga hagur útflutningsatvinnugreinar og hagur almennings í landinu að fara saman. Stundum er þó talað eins og þarna séu tveir hópar sem geti alls ekki náð saman þar sem hagsmunir þeirra séu svo ólíkir. Jafnvel má tala um vantraust almennings í garð atvinnulífsins. Það er til dæmis algengt að litið sé á talsmenn útflutningsatvinnugreinanna sem fulltrúa hins illa auðmagns og þeir taldir ófúsir að láta almenning njóta hagnaðarins. Almenningur hefur líka sterklega á tilfinningunni að stjórnmálamennirnir vilji hygla sérhagsmunahópum á kostnað venjulegs fólks. Þetta er að hluta til stjórnmálamönnunum sjálfum að kenna, því í málflutningi sínum tengja þeir ekki nægilega saman hag almennings og atvinnugreina. Fulltrúar útflutningsatvinnugreinanna mættu síðan muna að þeim yrði lítt ágengt án öflugs starfsfólks sem þeim er skylt að gera vel við.
Katrínu Jakobsdóttur, formanni Vinstri grænna, mæltist vel eftir að tilkynnt var um afnám hafta. „Fyrst og fremst þurfum við að hafa í huga hagsmuni almennings í landinu og að hann standi heill eftir losun hafta,“ sagði hún. Þetta er hárrétt áhersla hjá Katrínu. Í málflutningi stjórnmálamanna gætir þess of sjaldan að þeir láti sig hag almennings varða. Fólk verður að finna að stjórnmálamönnum standi einlæglega ekki á sama um það. Það er ekki nóg að stjórnmálamenn muni bara eftir stórfyrirtækjunum, þeir þurfa líka að muna eftir fólkinu.