fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fókus

Kamilla segir enga pressu að vera rithöfundabarn – Önnur bók í burðarliðnum

Kristinn H. Guðnason
Laugardaginn 11. maí 2019 20:00

Mynd: Dv/Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kamilla Einarsdóttir vakti töluverða athygli þegar hún gaf út sína fyrstu skáldsögu á síðasta ári, Kópavogskróníkuna. Bókin er hispurslaus og segir af ástarævintýrum móður í Kópavogi sem hún lýsir fyrir dóttur sinni. DV ræddi við Kamillu um bókina, framtíðina, veturinn á strípibúllu og þátttökuna í pólitík.

 

Þetta er brot úr stærra viðtali í helgarblaði DV.

 

Kamillu leiðist ekki bækur enda hefur hún alla sína ævi verið í kringum þær. Faðir hennar er Einar Kárason, hinn þekkti rithöfundur, og móðir hennar, Hildur Baldursdóttir, starfar sem bókasafnsfræðingur. Sjálf starfar Kamilla á Landsbókasafninu sem bókavörður og þar líður henni mjög vel. Kamilla segist hafa verið að skrifa síðan hún man eftir sér en ekki fyrr en nýlega með það að markmiði að gefa út bók.

„Ég hafði áður tekið þátt í safnriti um ástarsögur kvenna og einnig skrifað töluvert á samfélagsmiðlum. Einnig hafði ég nefnt þennan möguleika í samtölum við fólk. Þeir hjá Bjarti/Veröld höfðu samband við mig og spurðu hvort ég væri til í að reyna, og ég sagði já.“

Hvað vildir þú segja með bókinni?

„Aðallega vildi ég skemmta fólki. Ég var ekki með stórar meiningar eða boðskap um eitthvað samfélagslega mikilvægt. Ég sá bókina fyrir mér sem kilju sem fólk gæti geymt í rassvasanum og gripið til á ströndinni eða barnum á meðan það væri að bíða eftir vinum sínum. Að lesa hana átti að vera eins og að lenda á trúnó á fylleríi, án þvoglumælginnar auðvitað.“

Lestur hefur alltaf verið stór hluti af lífi Kamillu og áhrifin koma víða að. Hún vill þó ekki skilgreina sig sem hluta af einhverri stefnu eða kenna sig við tiltekna höfunda.

„Ég lít upp til margra höfunda en er þó ekki endilega að reyna að elta þá í stíl. En maður verður fyrir áhrifum af öllum bókum sem maður les, sem og bíómyndum, myndlist og góðu rapplagi sem maður heyrir. Ég vinn í kringum bækur og rekst á eitthvað nýtt og spennandi á hverjum einasta degi. En það er líka til ógrynni af grútleiðinlegum bókum og það er hvetjandi. Ég hugsa: Fyrst þetta var gefið út þá hlýt ég að geta gefið eitthvað út líka,“ segir Kamilla og brosir breitt.

 

Kynlíf sprenghlægilegt og skrýtið

Í mars hlaut Kamilla Rauðu hrafnsfjöðrina frá Lestrarfélaginu Krumma, en þau verðlaun eru veitt árlega fyrir forvitnilegustu kynlífslýsinguna. Í bók hennar eru ýmsar hispurslausar sögur í djarfari kantinum.

„Mér finnst bókin ekkert gróf,“ segir Kamilla. „Mér finnst einlægni heillandi og þegar sagt er frá hlutunum á hráan máta. Kynlíf getur verið og er oft sprenghlægilegt, fyndið og skrýtið. Ég sæki að einhverju leyti í eitthvað sem ég þekki sjálf, en þetta er ekki endurminningabók heldur skáldverk.“

Fannstu fyrir pressu, verandi dóttir þekkts rithöfundar?

„Nei, ég get ekki sagt það. Pabbi vissi að ég væri að fara að gefa út, en ég bað hann ekki um að lesa yfir eða neitt slíkt. Ísland er svo lítið og við erum öll svo skyld. Það er fjöldi rithöfundabarna að skrifa og kikna ekki undan pressu ættarinnar. Dóri DNA lætur það ekki stoppa sig að vera barnabarn Halldórs Laxness.“

 

Önnur bók í burðarliðnum

Kamilla ætlar ekki að láta þessa bók nægja heldur situr hún við skriftir að þeirri næstu. Hvort hún komi út fyrir næstu jól eða ekki verður að koma betur í ljós síðar.

„Það er erfitt að segja nákvæmlega hvernig hún verður, því á þessu stigi gæti hún mjög auðveldlega breyst. En eitt er víst að hún mun ekki gerast í Kópavogi,“ segir Kamilla og brosir. „Eins og er virðist hún ætla að höggva í sama knérunn og sú fyrsta.“

Er stefnan að gerast atvinnurithöfundur?

„Já, fyrir alla sem vilja skapa er það draumurinn að geta lifað af þessu. Eins og er geri ég þetta með fullri vinnu og sé auk þess um fjölskyldu. Það er ekki raunhæft að ætla að stóla á þetta strax og það græðir enginn á sölu eða upplestrum. Eina leiðin til að lifa af bókarskrifum á Íslandi er ef það verða margar bækur þýddar og svo komast á listamannalaun.“

Kamilla segist vera ánægð með viðtökurnar sem Kópavogskróníkan fékk.

„Þar sem þetta er fyrsta bókin eru þetta jafnframt bestu viðbrögðin sem ég hef fengið,“ segir hún hæðnislega. „En svona án gríns þá er ég mjög ánægð. Ég passaði mig að vera ekki með of miklar væntingar og átti alveg eins von á að hún hyrfi í flóðið.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður
Fókus
Í gær

Aðeins ein sýning á einstakri mynd um þjálfara körfuboltaliðs fatlaðra

Aðeins ein sýning á einstakri mynd um þjálfara körfuboltaliðs fatlaðra
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sjáðu paratattú Kleina og Hafdísar sem eru hjá því allra heilagasta

Sjáðu paratattú Kleina og Hafdísar sem eru hjá því allra heilagasta