Á fundi borgarráðs í gær voru samþykktar meginlínur og samningsmarkmið í viðræður við olíufélögin með það að markmiði að fækka bensínstöðvum í borginni um helming.
Áður var stefnt á að ná fram slíkri fækkun fyrir árið 2030 en borgarráð ákvað að herða markmiðið og stefna fremur á árið 2025. Í stað bensínstöðvanna kemur íbúðauppbygging, hverfisverslanir eða önnur starfsemi. Runólfur Ólafsson, formaður félags íslenskra bifreiðareigenda, segist fagna þessu markmiði.
„Ég bara fagna því. Við höfum gagnrýnt það í áraraðir að hér er gríðarleg ofkrýning bensínútsölustaða og neytendur hafa verið að borga fyrir alltof mikinn fjölda í umhverfinu.“
Þannig þetta á eftir að skila sér jákvætt til neytenda?
„Við eigum nú eftir að sjá það en það ætti að gera það samkvæmt lögmálum hagfræði og viðskipta. Ég vona að það muni hafa þau áhrif til lengri tíma. En það er ekkert nema jákvætt við það að draga úr framboði bensínstöðva á þessu svæði. Það er enginn skortur á bensínstöðvum.“
Samkvæmt tilkynningu borgarráðs er fækkunin liður í loftslagsáætlun borgarinnar og hafa nú verið skilgreindir hvatar fyrir olíufélögin til að hraða þessari umbreytingu í samvinnu við borgina í græna átt.