„Þegar ráðherrar sitja í þingsal eru þeir iðulega í símanum. Þetta gildir einkum um ráðherra Sjálfstæðisflokksins,“ segir Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar.
Guðmundur segir að símana noti þeir eflaust til að vera í sambandi við aðstoðarfólk sitt sem situr í hliðarsölum og dælir í þá punktum til að nota í svarræðum.
„Eða kannski eru þeir í Candy Crush eða kapal, hvað veit ég? En útkoman verður sú að þeir hafi öðrum og mikilvægari skyldum að gegna en að sitja undir ræðum þingmanna; þeir séu í raun og veru annars staðar – að stjórna landinu. Þetta kom Bjarna Benediktssyni í koll í gær þegar hann þurfti að biðja Björn Leví að endurtaka óundirbúna fyrirspurn því hann hefði ekki verið að fylgjast nógu vel með. Spurningin varðaði kostnað ráðuneyta við tölvukerfi og var býsna góð,“ segir Guðmundur Andri á Facebook-síðu sinni.
Nokkuð áhugaverðar umræður hafa spunnist undir færslunni og segir Bubbi Morthens til dæmis: „Þetta heitir að vera fjarverandi.“
Björn Leví, þingmaður Pírata og sá er beindi fyrirspurn sinni til Bjarna í gær, segist nota símann mjög mikið til að fletta upp málum, mælendaskrá og leita að upplýsingum meðan hann er í þingsal.
„Ég get ekki ímyndað mér hversu minnisdrifin umræða á þingi var áður … og við vitum alveg hversu brigðult minnið er þegar það kemur að smáatriðum,“ segir Björn.
Guðmundur Brynjólfsson, rithöfundur og pistlahöfundur Fréttablaðsins, stingur upp á því að tölvum verði komið fyrir í borðum þingmanna og ráðherra.
„Auðvitað ættu að vera fastar nettar tölvur í borðum þingmanna/ráðherra með stillingum sem hindruðu nema nauðsynlega vinnu, starfsins vegna. Það er ekkert eðlilegt að fólk sé stöðugt að fikta í símum sínum í vinnutíma, hvort heldur er á Alþingi eða á öðrum vinnustöðum.“