Minnihlutar velferðarnefndar skiluðu nefndarálitum sínum á þingi í dag um frumvarp til laga um þungunarrof. Minni hlutarnir voru þrír talsins sem voru ósammála meirihlutanum með einum eða öðrum hætti, vildu annað hvort minni eða meiri háttar lagfæringar, eða lögðust alfarið gegn því að frumvarpið yrði samþykkt.
Í nefndaráliti meirihlutans sem lagt var fram í apríl var tekið fram að helstu rökin fyrir að heimila þungunarrof fram á 22. viku væri sú að tilteknar fatlanir kæmu ekki í ljós fyrr en við fósturskimun á 20. viku. Einnig hafi konur sem búi við slæmar félagslegar aðstæður ekki alltaf möguleika á að gera sér grein fyrir þungun fyrr en langt er liðið á meðgönguna. Varðandi síðarnefndu rökin var bent á að nokkrar íslenskar konur hafi þurft að leita til Bretlands í þungunarrof. Þetta væru til dæmis konur sem ættu við alvarlegan fíkniefnavanda að stríða og konur í ofbeldissambandi.
„Meiri hlutinn leggur áherslu á að sjálfsvákvörðunarréttur kvenna verði ótvíræður. Í því felst að konan ein fái ráðið þeim forsendum sem liggja að baki ákvörðun um að rjúfa þungun“
Fyrsti minni hluti, Önnu Kolbrúnar Árnadóttur, er sammála flestum sjónarmiðum meirihlutans en þykir þó mismunun gagnvart fötluðum að heimila þungunarrof allt að 22 vikur meðgöngu. Réttar væri að miða við 18 vikur. Rökstuðningur fyrir að heimila þungunarrof upp að 22. viku hefur verið sá að hægt sé að bregðast við þegar fötlun komi í ljós í 20 vikna fósturskimun. Fyrsti minnihluti telur að með þessu móti sé ekki komið í veg fyrir mismunun.
2. minni hluti, Ásmundar Friðrikssonar, leggst alfarið gegn því að frumvarpið verði samþykkt og gengur í rauninni það langt að gefa til kynna að það ætti ekki að vera konunnar einnar að ákveða að fara í þungunarrof.
„Þegar líf er myndað af tveimur einstaklingum þá er að mati 2. minni hluta of langt gengið að annar einstaklingurinn hafi einn ákvörðunarvald um það hvort enda skuli meðgönguna. Þannig er mikil ábyrgð lögð á verðandi móður eina.“
„Hvar á að setja mörkin ef á að binda enda á líf í móðurkviði? Við lok 12. viku þungunar, lok 22. viku þungunar eða á foreldri að geta ákveðið að binda enda á þetta líf strax eftir fæðingu? Lífið er heilagt og það er sannfæring 2. minni hluta að það beri að vernda með öllum tilteknum ráðum.“
„Fremur en að tala um að rýmka rétt til fóstureyðinga væri okkur nær að finna leiðir til að hjálpa verðandi mæðrum í vanda að eignast börn sín.“
3. minni hluti, Guðmundar Inga Karlssonar, vill ekki tala um þungunarrof heldur vill halda áfram að nota orðið fóstureyðing sem sé, að þeirra mati, lýsandi fyrir hvað á sér stað í slíkri aðgerð. Einnig vill 3. minni hluti aðeins heimila þungunarrof fram að 12. viku meðgöngu.
„Fóstureyðing er hugtak sem endurspeglar þann verknað sem felst í aðgerðinni. Hugtakið þungunarrof er hins vegar tilraun til þess að horfa fram hjá alvarleika aðgerðarinnar og freista þess að færa hana búning hefðbundinnar læknisaðgerðar svo mögulega verði horft fram hjá því að verið er að binda enda á líf ófædds barns í móðurkviði.“
„Læknar sverja eið að því að bjarga og vernda líf ef þess er nokkur kostur, ekki að eyða því. Þessi óhóflega rýmkun á fóstureyðingarlöggjöfinni gengur þvert gegn sannfæringu og siðferði allra þeirra sem virða rétt ófædda barnsins til lífs.“
„3. minni hluti virðir að sjálfsögðu sjálfsákvörðunarrétt kvenna og yfirráð þeirra yfir eigin líkama, en dregur að þessu leyti mörkin gagnvart lífsrétti hins ófædda barns.“
Lagði 3. minni hluti fram breytingartillögu um að fóstureyðing verði notuð í stað þungunarrofs og að slík aðgerð verði aðeins heimil upp að 12. viku meðgöngu.