fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fókus

Sólborg rýfur þögnina fyrir þolendur

Aníta Estíva Harðardóttir
Mánudaginn 6. maí 2019 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sólborg Guðbrandsdóttir er tuttugu og tveggja ára tónlistarkona og fyrirlesari sem hefur þrátt fyrir ungan aldur náð gríðarlegum árangri í baráttunni gegn kynferðisofbeldi. Sólborg, sem ólst upp í Keflavík þar sem hún býr enn, hefur vakið mikla athygli á samfélags- og fréttamiðlum landsins undanfarið ár ásamt því að hafa tekið þátt í Söngvakeppni sjónvarpsins starfaði Sólborg með Áttunni. Fyrir rúmlega tveimur árum tók Sólborg þá ákvörðun að hætta að drekka áfengi og segir hún það bestu ákvörðun sem hún hafi tekið. Blaðamaður tók viðtal við Sólborgu þar sem rætt var um æskuna, ákvörðunina um að sleppa áfengi og baráttuna gegn kynferðisofbeldi.

„Ég er frá Keflavík og hef alltaf búið þar, fyrir utan eitt ár í Svíþjóð. Ég er svona í fyrsta skiptið núna að hugsa um að færa mig um set frá Keflavík,“ segir Sólborg sem á stóra fjölskyldu í Keflavík og þykir augljóslega vænt um heimabæ sinn.

Besta ákvörðunin var að hætta að drekka

Sólborg ólst upp á ástríku heimili og aðspurð um systkini hlær hún og segir: „Ég á tvíburasystur og svo á ég yngri bræður sem eru tvíburar líka. Það eru tvö og hálft ár á milli okkar. Við vorum fjögur á bleyju. Þetta er rosalegt, ég veit ekki hvernig foreldrar mínir gátu þetta. Svo á ég bróður líka sem er 17 árum eldri en ég, svo að þau tóku þetta svona í tveimur settum og það var alltaf fjör á mínu heimili. Ég veit ekkert hvernig það er að alast upp í ró og næði en ég hef alltaf átt leikfélaga. Við systurnar eru ótrúlega ólíkar, erum alveg svart og hvítt en náum samt ótrúlega vel saman og erum bestu vinkonur. Ég er mjög heppin með fjölskylduna mína og foreldrar mínir hafa kennt mér ótrúlega margt.“

Hætti að drekka Sólborg drakk til að deyfa tilfinningar og flýja vandamál/ Mynd: Hanna

Sem fyrr segir átti Sólborg góða æsku, hún stundaði grunnskóla- og framhaldsskólanám í Keflavík ásamt því að æfa körfubolta þar. Sólborg var virk í félagslífi og kíkti mikið á djammið mikið með vinum sínum á tímabili, allt þar til hún tók þá ákvörðun að hætta að drekka.

„Ég drakk síðast þann 12. nóvember 2016, þá var ég að halda upp á tvítugsafmælið mitt á Center, sem er skemmtistaður í Keflavík. Ég var búin að ákveða það fyrirfram að ég ætlaði að taka mér pásu eftir afmælið fram að áramótum. En svo varð sú pása bara að tveimur og hálfu ári. Þegar það komu áramót þá hugsaði ég með mér að taka einn mánuð í viðbót, svo ákvað ég að taka hálft ár. Eftir að ég hafði ekki drukkið í hált ár þá leið mér miklu betur, svo ég ákvað bara að 12. nóvember hefði verið síðasti dagurinn sem ég smakkaði áfengi í mínu lífi og ég sé ekki eftir því, þetta er besta ákvörðun sem ég hef tekið.“

Drakk til þess að bæla niður tilfinningar og flýja vandamál

Aðspurð að því hvers vegna hún tók þessa ákvörðunsegist Sólborg hafa átt í vandræðum með drykkju sína, en spyr á móti: „Hvernig er það ekki vandamál að drekka í sig deyfandi vökva. Mér finnst áhugavert að spurningin sé; af hverju drekkur þú ekki, í staðinn fyrir; af hverju drekkur þú? Við gerum þetta flest. Það er frávikið að vera sá sem ekki drekkur. En jú, þetta var algjörlega vandamál hjá mér, ég drakk til þess að reyna að líða betur og til þess að vera sjálfsöruggari. Þetta var auðveldur flótti frá daglegu lífi. Áfengi færði mér bara eitthvert bull, ég drakk til þess að deyfa tilfinningar mínar og flýja vandamál mín, eins og ég veit að mjög margir gera. Mér finnst áfengi rosalega normaliserað í samfélagi okkar og auðvitað er allt í lagi að fólk geri nákvæmlega það sem það vill, en fyrir mitt leyti, þá vil ég ekki drekka eitur til þess að reyna að líða betur í stuttan tíma, því að það gerir einmitt bara það. Lætur manni líða betur í styttri tíma og svo kemur þetta allt margfalt til baka. En eftir að ég hætti að drekka þá hafa markmið mín verið að rætast og ég er fókuseruð, ég hef meiri tíma fyrir sjálfa mig og ég er aldrei með eitthvert samviskubit eftir djamm. Í staðinn hef ég verið að vinna í sjálfri mér og í dag líður mér vel í eigin skinni. Ég er farin að gera hluti sem ég þorði ekki áður. Svo er mikið um alkóhólisma í ættinni minni en pabbi hefur verið edrú í 38 ár og stóri bróðir minn mun fljótlega fagna stórum áfanga, svo þetta er í kringum mig. Ég hætti alveg á meðan ég átti tiltölulega auðvelt með það.“

Sólborg segist hvorki hafa upplifað fordóma né skilningsleysi þegar hún hætti að drekka, heldur þvert á móti hafi fólk talið þetta góða ákvörðun og spurði hana gjarnan hvernig hún fór að.

„Fólk kom kannski til mín og hrósaði mér fyrir og sagði mér svo hvað það væri til í að hætta að drekka, en það væri bara alltaf eitthvað að fara að gerast, afmæli næstu helgi og þess háttar. En það er alveg nóg að gera hjá mér líka, ég geri það bara edrú. Við getum endalaust fundið afsakanir fyrir því að drekka, en við getum líka alveg fundið ástæður til þess að drekka ekki.“

Áttan var skemmtilegt ævintýri

Frá því að Sólborg hætti að drekka segir hún líf sitt hafa breyst til batnaðar og upplifir hún mikinn mun á líkama og sál.

„Ég finn mikinn mun á mér. Ég er farin að líta til baka núna og það er svo gott að sjá ekki bara breytingar á því hvernig maður lítur út, heldur líka breytingar á því hvernig manneskja maður er og það er svo gott að geta litið til baka og séð að hvaða leyti maður hefur þroskast. Ég er því meira að lifa því lífi sem mig langar til að lifa. Ég er ákveðnari og öruggari og nýti tíma minn miklu betur.“

Tónlistarkona Var ein af Áttuhópnum/ Mynd: Hanna

Það kannast líklega margir við Sólborgu síðan hún lék stórt hlutverk með samfélagsmiðlahópnum Áttunni en þar lék hún bæði og söng ásamt því að taka þátt í fleiri skemmtilegum uppákomum sem hópurinn tók upp á.

„Ég hef verið að syngja frá því að ég var lítill krakki. Pabbi er píanóleikari og við systurnar syngjum rosalega mikið saman. Ég hafði lengi vitað hvað Áttan er og þau voru á tímabili að auglýsa eftir fólki, ég var ekki að gera neitt og ákvað að sækja um. Svo fór ég í prufur og komst á endanum inn. Þetta var svolítil skyndiákvörðun, en var svo ótrúlega skemmtilegt ævintýri og ég kynntist frábærum krökkum og skemmti mér ótrúlega vel.“

Fávitar – Átak gegn kynferðisofbeldi

Sólborg tók svo ákvörðun um að hætta með Áttunni og fara að einbeita sér að öðru, persónulegra verkefni sem hún hafði þegar hafið.

„Ég fór að einbeita mér meira að Fávita Instagramminu og það var svona það sem mig langaði að gera einmitt þá.“

Síðan Fávitar sem Sólborg stofnaði á Instagram er átak hennar gegn stafrænu og annars konar kynferðisofbeldi og hefur síðan í dag yfir 20 þúsund fylgjendur sem standa saman í því að segja frá ofbeldi, styðja hvert annað og vinna gegn kynferðisofbeldi. Hugmyndina fékk Sólborg í gegnum Styrmi, góðan vin sinn, sem hafði séð sams konar síðu í Svíþjóð sem heitir „Assholes Online“.

„Hann kastaði þeirri hugmynd fram, hvort við ættum ekki að fara að hrista eitthvað upp í þessu í samfélaginu og gera eitthvað í þessu. Við vissum ekki alveg hvað við ætluðum að gera, ég byrjaði bara að birta skjáskot sem ég átti sjálf. Flestir hafa lent í einhverju svona á netinu. Dónalegum skilaboðum og þess háttar og ég tíndi það saman sem ég átti til og birti þarna inni. Smám saman varð þetta að því sem þetta er orðið í dag. Ég fer með fyrirlestra nánast daglega í skólum landsins og það eru um 20 þúsund manns að fylgjast með. Ég ætlaði aldrei að fara að halda fyrirlestra eða mæta í viðtöl. Ég var aldrei búin að ákveða þetta, en ég fór bara af stað af því að mig langaði að segja eitthvað þar sem ég var orðin þreytt á þessu. Smám saman hefur þetta svo orðið að einhvers konar afli.“

Lögum ekki vandamálin á meðan við þegjum

Segir Sólborg þau gríðarlega miklu viðbrögð sem síðan fékk sýna svart á hvítu hvað kynferðisofbeldi snerti marga.

„Þetta er ekki bara vandamál einhverra stelpna sem eru að kvarta yfir því hvað heimurinn er vondur við þær. Þetta er líf okkar allra. Þetta er hvernig við komum fram við hvert annað. Samskiptamátinn í menningu okkar. Þetta varðar okkur öll. Systkini okkar, vini, mömmur og pabba. Það skiptir máli að við vöndum okkur og séum tilbúin að gagnrýna það sem við gerum rangt.“

Stýrir stórum hóp Umræða um mörk í samskiptum kynjanna fara vaxandi / Mynd: Hanna

Sólborg segir heiminn sífellt að verða betri og betri með hverri byltingunni sem gerð er og að það sé mikilvægt að tala upphátt um hlutina.

„Um leið og við erum komin með orð eins og drusluskömm, hlutgerving og þolendaskömm, orð sem við vorum ekki með í orðaforðanum okkar fyrir einhverjum árum, þá förum við að geta bent á hluti og sagt: „Hei, þetta er þolendaskömm og hvað getum við gert til þess að koma í veg fyrir hana?“ Mér finnst við aðeins farin að verða umburðarlyndari gagnvart tilfinningum okkar og upplifun hvert annars. Við þurfum ekki að hafa það verst í heimi til þess að mega hafa það aðeins betra.“

Mikið af ofbeldi framið vegna vanþekkingar

Vonar Sólborg að hægt verði að útrýma kynferðisofbeldi í framtíðinni, en að það verði þó líklega ekki á meðan hún lifi.

„Síðasti fávitinn er ekkert fæddur, það er alltaf að fæðast vont fólk í þennan heim og ég kem ekkert í veg fyrir það, en ég veit samt líka að það er ótrúlega mikið af ofbeldi sem er framið af því að fólk veit ekki betur. Af því að enginn hefur sagt: „Þú mátt setja þín eigin mörk og þú mátt ekki fara yfir mörk annarra. Mörk fólks geta verið mismunandi.“ Það er svo margt svona sem þarf að útskýra. Kannski var einhverjum aldrei sagt að hann mætti ekki snerta aðra manneskju kynferðislega á meðan hún væri sofandi eða að það væri ekki í lagi að klípa í rassinn á fólki án leyfis. Það þarf að tala um alls konar svona grundvallarhluti og um leið og við gerum það þá held ég að við getum komið í veg fyrir ofbeldi.“

Skjáskot af Fávitar
Skjáskot af Fávitar

Þarf ekki að vera reiður þolandi kynferðisofbeldis til þess að mega tala

Sjálf hefur Sólborg aldrei orðið fyrir grófu kynferðisofbeldi en hefur hún þó átt í samskiptum við fólk sem farið hefur yfir hennar mörk.

„Það hefur alveg gerst á síðustu árum – að fólk virði ekki þegar ég segi nei eða heldur áfram að suða. Það er svo margt sem við getum gert til þess að vanda okkur betur. Ég er ekki þolandi kynferðisofbeldis, enda þarf ég ekki að vera það til þess að mega tala. Ég er ekki bara að biðja fólk um að koma betur fram við mig. Það eru ótrúlega margir þarna úti sem eru þolendur grófs kynferðisofbeldis og hafa ekki enn þá safnað kjarki til þess að rjúfa þögnina. Þess vegna er svo mikilvægt að þeir sem hafa kjark, nýti sér það til þess að hjálpa öðrum.“

Skjáskot af Fávitar

Sólborg segir Fávita Instagrammið í dag vera orðið ákveðið vopn fyrir fólk sem lent hefur í kynferðisofbeldi og að það hafi hjálpað mörgum.

„Það er svo mikill styrkur að hafa 20 þúsund manns sem eru að berjast gegn kynferðisofbeldi saman. Það leitaði til mín stelpa fyrir stutt sem bað um hjálp, hennar fyrrverandi var að hóta henni ofbeldi og hvetja hana til þess að fremja sjálfsvíg. Hann hótaði henni að ef hún myndi ekki senda honum kynferðisleg myndbönd þá myndi hann dreifa nektarmyndum af henni. Ég sendi á hann skilaboð og sagði honum að haga sér og þarna hafði ég þessa 20 þúsund fylgjendur á bak við mig. Þá bakkaði hann. Um leið og við förum að nýta það að geta kært þessi brot til lögreglunnar og förum að gera það, þá kannski fara hlutirnir að breytast og lögin fara að vera með okkur í liði, þrátt fyrir að þau eigi auðvitað að vera það í dag. Þrátt fyrir að Fávita-síðan sé bara Instagram-síða þá er hún hálfger verndarvængur, finnst mér. Það er svo mikil ást þarna inni.“

Upplifði kvíða og þunglyndi eftir grófar ofbeldissögur og dró sig í hlé

Eftir að Fávita-síðan hafði verið í loftinu í nokkurn tíma dró Sólborg sig í hlé frá síðunni og lét fylgjendur sína vita að hún gæti ekki séð um hana um óráðinn tíma. Aðspurð út í þá fjarveru segir Sólborg: „Þetta var bara kvíði og þunglyndi, ég var að ræða við og taka á móti sögum um ofbeldi á hverjum einasta degi, oft á dag.  Ég tók mér tveggja mánaða pásu í kringum nóvember og desember. Síðan ég kom til baka hef ég sett annanfókus á síðuna. Núna er ég meira að ræða alls konar femínísk umræðuefni þar inni á. Ég er enginn sérfræðingur en ég reyni að vera til staðar fyrir fólk og vísa því til þeirra sérfræðinga sem ég veit af. Ég fór upphaflega af stað með síðuna með það að markmiði að fjalla um stafrænt kynferðisofbeldi, hefndarklám og áreiti á netinu, en svo smám saman fór ég að birta sögur af ofbeldi í samböndum og af alls konar kynferðisofbeldi.“

Með her á bak við sig 20 þúsund manns eru í hópnum Fávitar / Mynd: Hanna

Aðspurð um framtíðina segir Sólborg hana óráðna að mestu.

„Ég er á fullu þessa dagana með fyrirlestra og er líka að vinna sem blaðamaður hjá Víkurfréttum. Svo kemur restin í ljós. Í sumar ætla ég að ferðast um landið og næ vonandi að vinna í einhverri tónlist, mér finnst það alltaf gott. Þegar ég fæ alveg nóg, þá tek ég mér pásur og þá finnst mér gott að hafa tónlistina.  Fávita síðan er tímabundið verkefni. Kannski klárast það í sumar, kannski í haust. Ég ætla að leyfa því að koma í ljós. Ég fæ svo mikla ást þarna inni og það hvetur mig rosalega mikið áfram. Ég er alveg með heilan her á bak við mig, og ekki á bak við mig, við erum öll á línunni að reyna að gera okkar besta þrátt fyrir að ég birti þetta. Við erum öll að vinna saman að þessu markmiði,“ segir Sólborg að lokum.

Hægt er að fylgjast með umræðunni og bóka Sólborgu á fyrirlestra á Instagram undir notandanafninu: favitar

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður
Fókus
Í gær

Aðeins ein sýning á einstakri mynd um þjálfara körfuboltaliðs fatlaðra

Aðeins ein sýning á einstakri mynd um þjálfara körfuboltaliðs fatlaðra
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sjáðu paratattú Kleina og Hafdísar sem eru hjá því allra heilagasta

Sjáðu paratattú Kleina og Hafdísar sem eru hjá því allra heilagasta