Fyrir rúmum tíu dögum skrifaði Gunnar Jóhann Gunnarsson skilaboð á Facebook-síðu hálfbróður síns sem hljóta að teljast frekar hrollvekjandi í ljósi þess sem síðar gerðist. Gunnar er talinn hafa skotið bróður sinn, Gísla Þór Þórarinsson, til bana um síðustu helgi. Hann hefur játað að hafa orðið bróður sínum að bana en segir að það hafi verið slys.
Hringbraut greinir frá því að þann 11. apríl síðastliðinn hafi Gísli Þór deilt á Facebook skrifum Inga Rafns Ragnarssonar sem birtust í Stundinni. Þar fjallaði Ingi Rafn um atvikið sem leiddi til þess að faðir hans lést af völdum bróður hans á bænum Gýgjarhóli II í Bláskógabyggð. Gísli Þór deildi þeim skrifum og sagði: „Svakaleg lesning“. Nokkru síðar skrifar Gunnar svo athugasemd þar sem hann segir: „„Bræður munu berjast“ á þetta ekki vel við?“
Gunnar Jóhann er 35 ára gamall, en hálfbróðir hans, Gísli Þór, var fertugur. Atburðurinn átti sér stað í smábænum Mehamn í Finnmörku í Noregi um síðustu helgi. Framburður Gunnars Jóhanns er í samræmi við Facebook-færslu sem hann birti rétt eftir atburðinn, þar sem hann játaði að hafa orðið hálfbróður sínum að bana, en sagði það hafa verið slys. Hann hefði óvart hleypt skoti af.