Shinji Okazaki, leikmaður Leicester, hefur ákveðið að hann ætli að yfirgefa félagið í sumar.
Þessi öflugi japanski framherji hefur lítið fengið að spila á þessu tímabili og ef hann spilar er það ekki í fremstu víglínu.
Okazaki vill fá að spila fremstur á vellinum og ætlar að fara annað svo það geti orðið að veruleika.
Okazaki var ein af hetjum Leicester er liðið vann ensku úrvalsdeildina óvænt árið 2016.
,,Ég hef ákveðið að yfirgefa Leicester því ég vil spila fyrir lið þar sem ég get barist um sæti sem framherji,“ sagði Okazaki.
,,Ég hef fengið fá tækifæri til að spila á þessu tímabili og hlutverk mitt er svo sannarlega ekki hlutverk framherja. Það er eins og ég sé annar miðjumaðurinn.“
,,Ég er ekki miðjumaður þegar ég ber mig saman við miðjumenn sem eru í ákveðnum gæðaflokki.“
,,Ég mun taka ákvörðun út frá því hvort ég geti spilað einhvers staðar sem framherji. Það væri áhugaverðara að spila þar sem það er hægt.“