Sigurður Sigurbjörnsson, formaður Sjálfstæðisfélagsins í Kópavogi, gefur í skyn í samtali við Hringbraut að Sjálfstæðismenn á átakafundi um helgina hafi óttast að hælisleitendur hafi verið vopnaðir, því einn þeirra var með bakpoka. Hann fullyrðir að Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, atvinnu – og nýsköpunarráðherra, hafi farið flóttaleið af fundinum.
„Það var líka ógnandi eins og einhver hafði á orði eftir fundinn, hvað hefði getað verið í þessum bakpoka. Aðalatriðið er þetta; við náðum tökum á ástandinu á fundinum og allir skildu sléttir og sáttir. Hælisleitandinn þakkaði manninum fyrir að snúa sig ekki niður og draga sig út. Hann þakkaði fyrir að hafa fengið að sitja fundinn,“ segir Sigurður í samtali við miðilinn.
Nokkrir hælisleitendur hleyptu upp fundinum, sem átti að vera um þriðja orkupakkann, og virtust krefjast svara um úrlausn sinna mála. Þegar mennirnir spurðu hvort það yrði hringt á lögregluna var svarið nei því tveir menn í salnum væru „lögreglan“. Tveir stæðilegir menn sögðu síðan „We are the police“, lentu í stympingum við mennina. Myndband af atvikinu má sjá hér fyrir neðan.
Sigurður segir að það hafi kvisast út að eitthvað væri í bakpokanum, þó hann nefni aldrei hvað. „Eins og einhver hafði á orði eftir fundinn, hvað hefði getað verið í þessum bakpoka? Menn eru að fabúlera í allar áttir. Sumir eru meira „paranoid“ í lífinu en aðrir. Ég heyrði því kvisað þarna, af því að menn hefðu alveg eins getað velt fyrir sér, hvað var í þessum bakpoka? Það voru einhverjir að gera það. Ég sagði við einhverja þarna: Heyrðu, halló halló. Við ætlum að lifa í núinu, við ætlum ekki að lifa í óttanum. Ef við ætlum að leyfa óttanum að taka stjórn á lífinu okkar, þá er lífið búið,“ segir Sigurður.
Sigurður fullyrði jafnframt að það hafi verið Íslendingar sem hafi haft áhrif á hælisleitendurnar. „Mér finnst meira athyglisvert hvað þessir ómerkilegu aðgerðarsinnar eru að gera þarna. Mér finnst það mjög dapurt að ata þeim þarna fram. Það sem þessi maður sagði okkur eftir á, hann er kristinn gyðingur frá múslimalandi, hann á ekki líf, það er ömurleg staða. Hann er að vinna hérna og vill vinna hérna og vera persóna í landinu og ég hef fullan skilning á því. Síðan getum við fundið athyglissjúka einstaklinga eins og Vilhjálm Þorsteinsson sem tekur þetta upp og dreifir þessu. Mér finnst það voðalega dapurt ef ég á að segja alveg eins og er,“ segir Sigurður.
Hann bætir því við að fjöldi lögreglumanna hafi verið tilbúnir í nágrenninu og að ráðherrar hafi farið flóttaleið af fundinum. „Það var tíu-fimmtán manna lögreglulið hjá Kópavogskirkju. Það var hringt á lögreglu. Sem betur fer þurftu þeir ekki að grípa inn í. Sem betur fer fóru þeir framhjá þegar fundurinn var búinn. Maður veit aldrei hvernig hlutirnir geta æxlast eða hvert hlutirnir geta farið. Við tókum þá ákvörðun að við fórum með ráðherrana annars staðar út úr húsinu, fórum ákveðna flóttaleið til að hafa allt á hreinu.“
https://www.facebook.com/vthorsteinsson/videos/vb.645007941/10158599535972942