Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, var ekki ánægður með frammistöðu sinna manna í 1-1 jafntefli gegn Stjörnunni í kvöld.
KR spilaði manni færri frá 44. mínútu en Rúnar var helst ósáttur við hvernig hans menn mættu til leiks á Samsung völlinn.
,,Ég er ekki sáttur með frammistöðuna en ég er sáttur við stigið. Við vorum slakir fyrsta hálftímann en komum vel inn í leikinn síðasta korterið en fáum svo á okkur mark og rautt spjald,“ sagði Rúnar við Stöð 2 Sport.
,,Við rifum okkur upp í seinni hálfleik og menn byrjuðu að berjast og við náðum að hanga á vítaspyrnumarkinu. Við áttum ekki mörg upphlaup en það var gott að skora snemma og jafna þá þurftu þeir að koma á okkur.“
,,Þetta var frábært stig, Stjarnan er með frábært lið og annað árið í röð basically sama byrjunarlið. Þetta er erfiður útivöllur en við komum lélegir út í þetta. Smá sviðskrekkur.“
,,Ég sá ekki vítið sem við fengum, mig grunaði ekki að hann væri að fara að dæma en hann var nær þessu en ég.“
,,Ég tuðaði í fjórða dómaranum áður en hann sagði að dómarinn væri nær atvikinu svo ég er ekki hissa að hann hafi dæmt því hann er miklu nær en ég.“