Síðasta leik fyrstu umferðar Íslandsmóts karla í knattspyrnu er nú lokið en Stjarnan og KR áttust við.
Leikið var á Samsung vellinum í Garðabæ og niðurstaðan 1-1 jafntefli. Bæði mörkin komu úr vítaspyrnu.
Stjarnan var manni fleiri allan seinni hálfleik en Aron Bjarki Jósepsson fékk beint rautt spjald á 44. mínútu hjá KR.
Hér má sjá það góða og slæma úr leiknum.
Plús:
Leikurinn var heilt yfir nokkuð fínn þó að það hafi vantað fleiri mörk. Menn vildu sækja en tvö mörk niðurstaðan.
Beitir Ólafsson bauð upp á stórkostlega vörslu í leiknum í kvöld. Guðjón Baldvinsson átti geggjaða hjólhestaspyrnu en Beitir sá við honum í markinu og varði á stórkostlegan hátt.
Beitir byrjaði leikinn á nokkrum vafasömum úthlaupum en stóð á endanum fyrir sínu og var traustur á línunni.
KR spilaði lengi vel manni færri en vörn liðsins hélt. Virkilega gott stig.
Mínus:
Stjarnan var manni fleiri frá 44. mínútu. Það er í raun ekki ásættanlegt að liðið hafi ekki bætt við í seinni hálfleik.
Aron Bjarki Jósepsson ákvað að láta reka sig af velli hjá KR. Hann bjargaði marki með hendinni og fékk Stjarnan vítaspyrnu. Úr henni skoraði Hilmar Árni Halldórsson.
Það er auðvitað ansi svekkjandi að bæði mörk leiksins hafi verið vítaspyrnumörk. Það vantaði meira, meiri kraft.
Stjarnan var að sjálfsögðu meira með boltann en af hverju þarf alltaf að dæla þessu beint inn í boxið? Varnarmenn KR voru oftar en ekki á réttum stað og skölluðu knöttinn burt. Beitir hefur líklega aldrei snert boltann eins oft í einum leik, ef það fór ekki á höfuð varnarmanns þá greip hann allt sem til hans kom. Hefðu mátt vera rólegri og spila sig í gegn.