Björn Daníel Sverrisson er mættur aftur heim til Íslands eftir nokkuð langa dvöl í atvinnumennsku.
Björn lék með FH í dag sem spilaði við HK í fyrstu umferð en FH-ingar unnu að lokum 2-0 heimasigur.
,,Þetta var gaman. Maður hefur saknað þess að spila í Krikanum, það er alltaf gaman að spila hérna,“ sagði Björn.
,,Þetta var ekkert fallegasti sigur í heimi en við unnum 2-0, héldum hreinu og fengum þrjú stig í fyrsta leik.“
Björn spilaði nokkuð aftarlega í leiknum í dag sem er hlutverk sem hann þekkir ágætlega.
,,Mér finnst gaman að fá boltann og ég missti hann sjaldan í þessum leik. Ég er örugglega einn af betri mönnunum með boltann í liðinu svo það er fínt þegar þeir láta mig hafa hann þegar ég vil fá hann.“
,,Maður talar nú íslensku í klefanum og þekkir flesta strákana. Þetta hefur liðið hraðar en ég bjóst við.“
Guðmann Þórisson og Björn skelltu sér út að borða á dögunum og fékk Björn sér piparostaborgara. Hann er viss um að það hafi hjálpað til.
,,Ég held það. Piparostaborgarinn hjá Pétri. Hann gaf manni extra orku í endann og ég held að við kíkjum þarna aftur á morgun í hádeginu!“