Ferðaskrifstofan VITA hefur sitt þriðja leiguflug í viku til Alicante á Spáni. Flogið er með Icelandair á þriðjudögum, fimmtudögum og föstudögum.
Þetta kemur fram í tilkynningu sem fyrirtækið sendi frá sér.
„Salan sumarið 2019 hefur farið fram úr væntingum og margar brottfarir eru nú þegar uppseldar. Alicante er staðsett í hjarta Costa Blanca héraðsins á Spáni. Þaðan er akstursfjarlægð til Valencia um 90 mínútur og um 5 klst. til Barcelona. Benidorm, Albir og Calpe eru miklir ferðamannastaðir og þar er hægt að nálgast alla þá þjónustu sem hugsast getur, menningu, mannlíf, strandlíf, slökun, matar- og vínmenningu og mikla veðursæld svo eitthvað sé nefnt,“ segir í tilkynningunni.
Ferðaskrifstofan VITA er dótturfélag Icelandair Group.