„Í hádeginu í dag ætla nokkrar konur að setja nafn sitt og starfstitil í stöðufærslu á samfélagsmiðlum með myllumerkinu #svomogginnviti. Væri gaman að hafa sem flestar með. Megið gjarnan láta orðið berast.“ Þetta segir femíníska vefritið Knúz á Facebook en ástæða þessa mótmæla er myndatexti sem fylgdi með frétt Morgunblaðsins í gær.
Fréttin er raunar myndasería af fundi Microsoft á Íslandi um gervigreind. Þar mátti sjá mynd af helstu yfirmönnum fyrirtækisins á Íslandi, tveimur körlum og einni konu. Morgunblaðinu láðist að nefna konuna á nafn en kynnti hins vegar báða karlanna.
Svo má skilja að aðstandendur Knúz telji þennan myndatexta endurspegla kvenfjandsamlegt viðhorf. „Hér er mynd. Á myndinni eru tveir stjórar. Og jú, svo er víst ein kona líka, en það skiptir ekki máli. Það eru tveir stjórar á þessari mynd!,“ segir í stöðufærslu Knúz og er óskað eftir nafni konunnar.
Sif Traustadóttir svarar því kalli og segir: „Hún heitir Helga Dögg Björgvinsdóttir og gegnir yfirmannsstöðu hjá Microsoft á Íslandi, alveg eins og mennirnir á myndinni. Svo er skemmtilegt að segja fá því að hún er einnig fyrrverandi formaður Landssambands Sjálfstæðiskvenna. Þetta eru hlutir sem er ekki mikið mál fyrir blaðamann mbl að finna út.“