Einn vinsælasti grínisti landsins, Ari Eldjárn, er í einlægu viðtali við Sigmund Erni Rúnarsson á sjónvarpsstöðinni Hringbraut þar sem hann fer yfir ferilinn, fjölskyldulífið og ástvinamissi.
„Ég var alltaf að reyna að vera fyndinn þegar ég var krakki,“ segir Ari um af hverju grínið valdi hann. „Ég held að ég sé frekar einfaldur í grunninn. Þetta er leið til að lifa af, það er að reyna að hafa gaman þegar maður getur.“
Ari segjast semja grín í skorpum.
„Stundum dett ég alveg niður og geri ekki neitt. Stundum tek ég lotur þegar ég er ekki búinn að semja mikið lengi og þá fæ ég samviskubit yfir því,“ segir Ari og bætir við að svo taki við tímabil þar sem hann semji afskaplega mikið af gríni. „Þetta er svona upp og niður.“
Ari segir að það sé engin ein alheimsuppskrift að gríni. Hann hefur ferðast um allan heim með uppistand og finnur lítinn mun á milli landa þegar kemur að því hvað fólki finnst fyndið.
„Húmor er kannski alltaf að breytast. Mörkin eru alltaf að færast til.“
Ari er sonur veðurfræðingsins Unnar Ólafsdóttur og rithöfundarins Þórarins Eldjárns. Afi hans var því Kristján Eldjárn, þriðji forseti Íslands. Kristján lést árið 1982, þegar að Ari var eins árs, og því kynntist hann honum ekkert.
„Ég var samt svo heppinn að einhvern tímann komst ég yfir segulbandsdagbækur sem hann hélt,“ segir Ari, sem fagnaði upptökunum mikið. „Þar eru langar upptökur af honum að spjalla við sjálfan sig og taka minnispunkta.“
Mikil áföll hafa dunið yfir fjölskyldu Ara, en tveir bræður hans, Ólafur og Kristján, létust langt fyrir aldur fram. Ólafur lést árið 1998 og Kristján fjórum árum síðar.
„Tíminn auðvitað líður og það hjálpar manni,“ segir Ari. „Ég held að í gegnum veikindin hjá þeim báðum hafi aukist hvernig maður er, hvernig maður lætur hverjum degi nægja sína þjáningu,“ bætir hann við. Hann segist ekki eiga neitt gott svar við hvernig hægt sé að komast yfir slíkan missi. „Þetta er náttúrulega rosalega mikill rússíbani af erfiðum tilfinningum,“ segir hann. „Auðvitað breytir þetta manni.“
Ari Eldjárn er í sambúð með Lindu Guðrúnu Karlsdóttur. Þau eiga tvær dætur, önnu hálfs árs gömul og hin fimm ára. Ari segir þá yngri vera ansi ákveðna.
„Litla stelpan tekur ekki snuð, tekur ekki pela. Hún er mjög ákveðin. Ef maður reynir að halla henni upp að sér eða leggja hausinn á bringuna þá spennir hún sig bara. Hún vill fá að snúa fram og notar mann eins og statíf,“ segir Ari. „Það er rosa hasar akkúrat núna. Þetta fyrsta ár er maður í stofufangelsi. Svo fær maður auknar ferðaheimildir eftir því sem dagvistun eykst,“ bætir hann við. „Þetta er náttúrulega stórkostleg fjárfesting á tímanum þínum. Að eiga litla manneskju sem er sprenghlægileg og skemmtileg.“
Viðtalið í heild sinni má horfa á hér fyrir neðan: