65 ára gamall karlmaður fannst látinn í Vaðlaheiðargöngum í gær. Þetta segir Bergur Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá rannsóknardeild lögreglunnar á Norðurlandi eystra, í samtali við Morgunblaðið.
Þar segir að maðurinn hafi látist skyndilega og er ekki talið að andlát hans hafi borið að með saknæmum hætti. Maðurinn starfaði sem málari og var að vinna í tæknirými í göngunum þegar hann lést.
Ekki er hægt að segja til um dánarorsök fyrr en eftir krufningu en ekki er talið að maðurinn hafi orðið fyrir eitrun eða að andlát hans hafi tengst vinnu í göngunum. Göngunum var lokað í aðra áttina um skamma hríð um miðjan dag í gær meðan viðbragsaðilar athöfnuðu sig á vettvangi.