Seinni Lottó-vinningshafinn í fjórfalda pottinum frá þar síðustu helgi hefur nú vitjað vinningsins hjá Getspá en það var ungur maður af höfuðborgarsvæðinu.
Í tilkynningu kemur fram að maðurinn ungi hafi farið inn á lotto.is til að tryggja sér miða. Síðar sama dag kom svo sterk tilfinning yfir hann og ákvað hann því að fara á nýjan leik inn á lotto.is og bæta við öðrum miða svona til öryggis.
„Og sem betur fer því sá miði skilaði honum einmitt 5 réttum og vinning upp á tæpar 22 skattfrjálsar milljónir.“
Í tilkynningunni er haft eftir vinningshafanum að þetta væri allt í raun mjög ótrúlegt. Það væri þvílík heppni að hann skildi hafa bætt þessum auka miða við, tilfinningin hefði bara komið svo sterkt yfir hann að það var ekkert annað í stöðunni.
„Hann hafði enn ekki deilt gleði fréttunum með neinum og því lítið búinn að ákveða næstu skref. Íslensk getspá óskar vinningshafanum innilega til hamingju með þennan frábæra vinning.“