fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Eyjan

Umdeilt eignarhald á glæsivillu Sigurðar – 870 fermetrar með vínkjallara og gufuböðum

Erla Dóra Magnúsdóttir
Föstudaginn 25. janúar 2019 16:10

Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings. Samsett mynd/DV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, býr enn í húsi á Seltjarnarnesi og missti aldrei umráðin yfir 840 fermetra sumarhöll í Borgarnesi, þrátt fyrir hafa orðið gjaldþrota. Aðeins ein eign, einbýlishús á Seltjarnarnesi, fannst í þrotabúi Sigurðar. Þrátt fyrir að eignin hafi endað í þrotabúinu og gífurlegum fjárkröfum lýst í búið, býr Sigurður enn í húsinu en það er nú í eigu eiginkonu hans, Arndísar Björnsdóttur. Veglegt sumarhús Sigurðar í Borgarfirði var ekki hluti af  þrotabúinu þar sem það hafði skipt um eignarhald. Um málið er fjallað í helgarblaði Stundarinnar  þar sem færð eru rök fyrir því að sumarhúsið í Borgarfirði hafi aldrei farið úr höndum fjölskyldunnar og að einbýlishúsinu á Seltjarnarnesi hafi sömuleiðis staðið til að bjarga frá kröfuhöfunum. 

Var sumarhúsinu í Borgarfirði skotið undan kröfuhöfum?

Glæsilegt sumarhús sem Sigurður Einarsson lét byggja fyrir sig virðist ekki hafa farið úr eigu fjölskyldu hans, þrátt fyrir að opinberar eignarheimildir segi annað. Þetta kemur fram í helgarblaði Stundarinnar. Sumarhúsið, sem kallast Veiðilækur og er staðsett í Borgarfirði, var áður í eigu eignarhaldsfélags Sigurðar. Árið 2011 færðist eignarhaldið til einkahlutafélagsins JABB á Íslandi ehf, en það er dótturfyrirtæki JABB S.A í Lúxemborg.  

Eftir að Sigurður lét lýsa sig gjaldþrota var 250 milljón kröfur gerðar í þrotabúið. Veiðilækur gekk ekki inn í búið þar sem sumarhúsið var ekki lengur í eigu Sigurðar við gjaldþrotið.  Í rauninni hélt Sigurður því fram við gjaldþrotið, sem hann óskaði eftir sjálfur, að eignir hans væru engar. Í bókinni Kaupthinking – bankinn sem átti sig sjálfur, eftir Þórð Snæ Júlíusson kemur fram að við fyrstu yfirheyrslu hjá sérstökum saksóknara hafi Sigurður sagt um eignir sínar:

„Ég hugsa að þær séu einhvers staðar nálægt núll.“

Tvö gufuböð og vínkjallari

Glæsivillan var óbyggð í hruninu, hélt smíðin áfram árið 2012. Veiðilækur er í dag 840 fermetrar að stærð, með fimmtíu fermetra vínkjallara og tvöföldum bílskúr, svo fátt eitt sé nefnt.

DV gerði ítarlega úttekt á Veiðilæk veturinn 2008 þegar byggingin var enn í smíðum. Þar kom fram að Sigurður hefði tryggt sér lóðina nokkrum árum áður, þá sérstaklega þar sem staðsetningin hentar vel til laxveiða. Á tímabili var Sigurður með um 14 til 20 milljónir króna í mánaðarlaun hjá Kaupþingi, en líkt og fleiri bankamenn á þeim tíma hagnaðist hann mjög hratt á kaupréttarsamningum.

Glæsivillan Veiðilækur. Mynd úr safni.

Veiðilækur var teiknaður af VA arkitektum. Í kjallara eru tvö gufuböð sem byggð eru inn í bergið í Norðurárdalnum. Samkvæmt teikningum hússins eru þetta sauna og blautsauna. Þá eru fullkomnir búningsklefar og sturtuaðstaða á sömu hæð.

Í kjallaranum er líka hvíldarstofa með stórum og miklum arineld. Úr þurru sánunni er gengið út á pall og horft yfir Norðuránna og til Háskólans á Bifröst. Samkvæmt heimildum DV átti „saunahúsið“ að vera ótengt sjálfu sveitarsetrinu með aðeins eina saunu en Sigurður ákvað þó seinna í framkvæmdarferlinu að stækka sveitarsetrið, tengja það við saunahúsið og bæta við blautsánu.

Samkvæmt teikningum er gert ráð fyrir tuttugu manna borðstofuborði og fimm baðherbergjum. Í miðjunni er glæsilegt eldhús og hinum megin við það er stór stofa með arineldi. Út frá borðstofunni er hægt að ganga út á „suðurpall“ hússins, þar er yfirdekkuð og upphituð útiborðstofa fyrir átta manns. Úr eldhúsinu er gengið niður í fimmtíu fermetra vínkjallara sem er á millihæð villunnar.

Sigurður og Veiðilækur rötuðu aftur í þjóðfélagsumræðuna árið 2016 þegar Sigurður tjáði vegfaranda að hann „myndi berja hann“ ef hann færi ekki frá húsinu.

Sjá einnig: Sigurður Einarsson hótaði barsmíðum: „Farðu svo ég þurfi ekki að berja þig“

Freyr Einarsson, talsmaður Sigurðar, sagði fólkið hafa komið inn á svæðið í óleyfi. Það sé girt af og að skýrt komi fram að óviðkomandi sé bannaður aðgangur:

„Fólkið var þarna að mynda inn um rúðurnar og þetta er auðvitað bara innrás á friðhelgi einkalífsins. Þarna er allt girt af og svæðið er læst með hliði, þannig að fólkið hefur farið yfir hliðið og inn á þessa einkaeign,“

sagði Freyr í samtali við Vísi. Sagði Freyr jafnframt að Sigurður ætti ekki húsið, það væri í eigu vinar hans sem byggi erlendis. Sigurður, sem var þá að afplána 5 ára dóm fyrir aðild sína að Al-Thani málinu, hafi aðeins verið að sinna eftirliti með Veiðilæk.

„Hann er auðvitað inni á Vernd en þarna hafði hann bara tekið sunnudagsrúnt að bústaðnum, til að kanna stöðuna á eigninni fyrir eiganda hennar.“

Umfjöllun Stundarinnar gefur til kynna að sumarhúsið hafi þó ekki skipt um eigendur nema samkvæmt pappírum. Í raun hafi Sigurður aldrei misst umráðin yfir sumarhúsinu. Móðurfyrirtæki JABB á Íslandi ehf. , JABB S.A er stýrt af eignastýringarfyrirtæki sem kallast Vinson Capital S.á.r.l. og fyrirsvarsmaður þess er knattspyrnumaðurinn Sigþór Júlíusson. Hann tók við fyrirsvari af Johnie Brogger, fyrrverandi forstjóra Kaupþings í Lúxemborg og ákvörðunin um skipun hans sem fyrirsvarsmann var tekin á fundi sem Arndís stýrði. Fundinn sátu, auk Arndísar, endurskoðandi og lögbókandi en enginn annar þó bókað væri að allir hluthafar væru viðstaddir eða fulltrúar þeirra. Stundinni virðist því sem að Arndís stýri í JABB S.A, sem er móðurfélag JABB á Íslandi ehf. sem er núverandi eigandi Veiðilæks en Sigþór Júlíussin neitaði, í samtali við blaðamann Stundarinnar, að gefa upp hver væri eigandi JABB S.A eða hver fjármagnaði það og sagði: „Ég hef enga ástæður til að tjá mig um það og mun ekki tjá mig um það.“. 

Arndís Björnsdóttir og Sigurður Einarsson. Mynd úr safni.

Arndís á einbýlishúsið

Stundin fjallar einnig um eignarhald á einbýlishúsi þeirra hjóna á Seltjarnarnesi. Eignin rann inn í þrotabú Sigurðar, og var eina eignin sem þar fannst, en er í dag kominn að fullu í eigu Arndísar. 

Áður en eignin gekk inn í þrotabúið reyndi Sigurður að fá systur sína, hjúkrunarfræðinginn Kristjönu Ernu, til að kaupa eignina, en salan gekk ekki eftir. Helmingshlutur Sigurðar gekk því inn í þrotabúið og keypti systir hans hluta þaðan og hinn hlutann frá Arndísi. Kaupin fjármagnaði Kristjána með láni frá Kviku banka sem varð til við samruna MP banka og Straums. Nafnvirði lánsins var 30 milljónir króna og átti að greiðast til baka í einu lagi. Lánið var nokkrum sinnum framlengt og kom ekki til greiðslu fyrr en í fyrra, þremur árum eftir að það var tekið.  Stundinni finnst athyglisvert að bankastjóri Kviku, Ármann Þorvaldsson, hafi á árum áður verið einn nánasti samstarfsmaður Sigurðar Einarssonar hjá Kaupþing. 

Arndís er skráð fyrir aflandsfélaginu Robinsons Associates Inc, en áður var það skráð á Sigurð. Þetta kemur fram í Panamaskjölunum. Ekki er vitað hvers konar viðskipti félagið stundar. Eignarhaldið var fært til Arndísar eftir að eiginmaður hennar var dæmdur í Al-Thani málinu.  

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Segir kjósendur bera ábyrgð á þeim stjórnmálamönnum sem þeir kjósa

Segir kjósendur bera ábyrgð á þeim stjórnmálamönnum sem þeir kjósa
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum