Verslunin Bræðurnir Eyjólfsson á Flateyri fagnar 100 ára afmæli á morgun, laugardaginn 29. desember, en þá eru liðin hundrað ár síðan verslunin fékk verslunarleyfi.
Verslunin er elsta upprunalega verslun landsins, rekin í upphaflegu húsnæði með upprunalegum innréttingum og enn af sömu fjölskyldu. Í dag stendur Eyþór Jóvinsson vaktina í búðinni, en hann er langafabarn Jóns Eyjólfssonar sem var einn þriggja stofnenda verslunarinnar og verslunarstjóri lengst af.
Verslunin byrjaði sem nýlenduvöruverslun en þróaðist smátt og smátt yfir í bókaverslun. Í dag er rekin þar fornbókasala auk þess sem gestum gefst kostur á því að líta inn í íbúð þeirra kaupmannshjóna, en hún hefur staðið nánast óbreytt frá því að Jón lést, árið 1950, og er því engu líkara en að stíga aftur í tímann að kíkja þar inn.
Aldarafmælinu verður fagnað á morgun, laugardaginn klukkan 15 í Bókabúðinni. Tímamótunum verður fagnað með því að innsigla tímahylki, sem verður læst næstu hundrað árin. Flateyringar og aðrir hafa undanfarnar vikur verið að safna saman munum, skrifa bréf, teikna myndir og taka ljósmyndir fyrir tímahylkið og er því ætlað að gefa nokkuð góða mynd af því samfélagi sem er á Flateyri í dag. Þannig er tímahylkinu ætlað að gefa kynslóðum framtíðarinnar smá glugga inn í samfélagið í dag, líkt og bókabúðin veitir gestum hennar innsýn inn í samfélagið og lifnaðarhætti á fyrrihluta síðustu aldar.