Eygló Anna Tómasdóttir er búsett í Reykjanesbæ ásamt eiginmanni og fjórum sonum. Fjölskyldan fór ekki varhluta af mengunaráhrifum kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík og glímdu við margvíslega heilsufarskvilla á meðan starfsemi verksmiðjunnar var í gangi. Eygló segir mengunaráhrifin hafa skert lífsgæði þeirra verulega og hyggst flytja búferlum ef að starfsemin hefst á ný.
Saga Eyglóar og fjölskyldu hennar er ekki einsdæmi en síðastliðinn þriðjudaginn ræddi DV við Maríu Ísrún Hauksdóttur, íbúa í Reykjanesbæ og móður 14 ára stúlku sem glímdi lengi vel við svæsinn asma. Einkenni dóttur hennar blossuðu upp um svipað leyti og kísilver United Silicon tekið í notkun í Helguvík í lok árs 2016. Þegar starfsemin var stöðvuð á seinasta ári hurfu einkennin sömuleiðis.
Lyktar og reykmengun kísilmálmverksmiðjunnar í Helguvík hefur verið talsvert til umfjöllunar undanfarin misseri. Í ágúst á seinasta ári sendu Samtök andstæðinga stóriðju í Helguvík, ASH, frá sér yfirlýsingu þar sem hvatt var til þess að verksmiðju United Silicon í Helguvíkyrði lokað. Fram kom að hluti íbúa á Reykjanesi hefði ítrekað orðið fyrir verulegum óþægindum og vanlíðan vegna mengunar frá verksmiðjunni.
„Ef marka má hluta íbúa þá hafa þeir upplifað verulega skert lífsgæði vegna starfsemi United Silicon þar sem þeim er í sumum tilfellum haldið í gíslingu innandyra og geta ekki haft glugga opna. Þá hefur hluti íbúa fundið fyrir líkamlegum einkennum eins og auknum astmaeinkennum, hæsi, þurrk í hálsi og sviða í augum svo fátt eitt sé nefnt. Stjórn samtakanna telja það því með öllu óljóst að mengun frá United Silicon sé skaðlaus heilsu manna,“
sagði meðal annars í yfirlýsingunni. Umhverfisstofnun stöðvaði rekstur kísilversins í september á seinasta ári. Stakkberg ehf., dótturfélag Arion banka tók yfir reksturinn í febrúar síðastliðnum og hyggst nú eyða fjórum milljörðum króna í að koma starfseminni í gang á ný.
Eygló og eiginmaður hennar, Sigurður Stefánsson eiga saman fjóra syni. Í samtali við blaðamann segist Eygló ætíð hafa verið afar heilsuhraust. Hún hafi að vísu verið greind með asthma sem barn en alltaf náð að halda einkennum í skefjum með lyfjum og því hafi asthminn ekki hamlað henni í daglegu lífi.
Hún segir að nánast um leið og kísilverið hafi verið sett í gang hafi hún byrjað að finna fyrir einkennum frá öndunarfærum. Hún varð andstutt, fékk mikið hæsi, kláða í augu og var stöðugt með þurrk í munni og augum.
„Ég hafði alltaf verið mjög heilbrigð og hraust, og varla þurft að taka verkjalyf, rétt svo bara vítamín og búið. Þarna var ég allt í einu komin á fjögur lyf við öndunarfærasjúkdómum.“
Aðrir fjölskyldumeðlimir fundu einnig fyrir mengunaráhrifum. Eiginmaður Eyglóar fann fyrir þurrki í augum og elsti sonurinn þurfti að hennar sögn að notast við asthmapúst til þess að geta stundað útiæfingar í fótbolta en fram að því hafði hann aldrei þurft að glíma við öndunarfærakvilla. Þá kvartaði næstelsti sonurinn einnig undan öndunarþyngslum en Eygló bendir á að grunnskólinn í Reykjanesbæ hafi orðið fyrir mikilli lyktarmengun frá kísilverinu: lyktin hafi smogið inn um gluggana og á heitum dögum hafi loftið verið óbærilegt.
„Eitt síðdegi sátum við hérna bakvið hús og ætluðum að grilla og hafa það notalegt. Á endanum þurftum við öll að flýja inn út af lyktinni og þurrkinum. Það var aldrei hægt að hafa opinn glugga. Þetta er svakalega mikil skerðing á lífsgæðum.Þetta var eins og vera í fangelsi.“
Þá sá Eygló ekki annan kost í stöðunni en að hætta að láta eins árs gamlan son sinn sofa úti í vagni. „Ég gat varla andað sjálf og því kom ekki til greina að bjóða barninu mínu upp á þetta. Ég gat ekki einu sinni hugsað mér að fara með hann út í göngutúra og endaði á að selja vagninn hans. Hann hefur sofið inni síðan.“
Eygló segir að einkennin hafi horfið um leið og starfsemi kísilversins var stöðvuð.
„Einkenninn hurfu strax hjá strákunum og svo fór að draga úr þessu hjá mér. Í dag er ég mjög góð og hef varla þurft á lyfjum að halda. En ég veit alveg hvað á eftir að gerast ef að kísilverið fer í gang aftur,“ segir hún og bætir við að það sé ekkert annað í stöðunni en að flytja úr bænum ef að starfsemin hefst á ný.
Íbúasamtökin Andstæðingar stóriðju í Helguvík hafa hrundið af stað undirskriftasöfnunvegna málsins en í fréttatilkynningu frá samtökunum kemur fram að flestir flokkar sem voru í framboði boðið fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar í Reykjanesbæ hafi gagnrýnt stóriðjumálin í Helguvík. Þá er mengandi stóriðju hafnað í stjórnarsáttmála núverandi meirihluta bæjarstjórnar. Samtökin kalla eftir því að leitað verði álits íbúa á málinu með kosningu.
„Það er auðvitað bara hræðilegt ef að það verður af þessu. Við munum ekki sætta okkur við það. Heilsan okkar er ekki til sölu,“ segir Eygló að lokum um leið og hún hvetur sem flesta til taka þátt í undirskriftasöfnun samtakanna.