Andreas Luthe, markvörður Augsburg í Þýskalandi, er harðhaus en hann lék með liðinu í tapi gegn Bayer Leverkusen í gær.
Luthe lenti í árekstri við Kevin Volland, leikmann Leverkusen, í síðari hálfleik er hann fékk hné sóknarmannsins í andlitið.
Hann var nokkuð illa farinn eftir þennan árekstur en hélt áfram keppni þrátt fyrir að hafa bitið af bút af tungu sinni.
,,Hálsinn á mér er frekar stífur og partur af tungunni minni er farinn en það er ekkert vandamál,“ sagði Luthe við Sky.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Luthe spilar meiddur en hann lék puttabrotinn á undirbúningstímabilinu.
Hann klæðist sérstökum hönskum en hann getur ekki jafnað sig alveg af þeim meiðslum og þarf því að spila meiddur í hverjum einasta leik.
Luthe er 32 ára gamall og er liðsfélagi Alfreðs Finnbogasonar hjá Augsburg.