Margir muna eftir Miklagarði sem var stærsta verslun landsins á níunda áratugnum. Var verslunin opnuð í Holtagörðum í nóvember árið 1983 og var verslunarrýmið heilir 4.700 fermetrar. Í verslunum Miklagarðs var á sínum tíma hægt að nálgast Miklagarðstíðindi en þar mátti finna nýjustu fréttir af þeim tilboðum og uppákomum sem voru í gangi í hverju sinni. Myndirnar tók Óli Jón Jónsson, fyrrverandi starfsmaður Miklagarðs, og eru þær teknar á níunda áratugnum.
Síðar meir áttu eftir að vera starfræktar fimm stórverslanir á höfuðborgarsvæðinu en auk verslunarinnar í Holtagörðum mátti einnig finna útibú í Garðabæ, Hafnarfirði, í Vesturbænum og í Mjódd. Fyrirtækið var rekið af SÍS en varð gjaldþrota árið 1993 og lögðu verslanirnar þá upp laupana. Pressan ræddi á sínum tíma við Elísu G. Jónsdóttur sem starfaði í Miklagarði og lýsti honum sem fyrsta stórmarkaðinum á Íslandi.
„Pabbi var framkvæmdastjóri og maður var alltaf með annan fótinn þarna þangað til ég byrjaði að vinna þar árið 1988 og bræður mínir unnu þar líka,“ sagði Elísa. „Við vorum eins og ein stór fjölskylda. Samheldnin og andrúmsloftið sem ríkti á hverjum degi var alveg frábært. Við sem unnum þarna sem unglingar kynntumst mörg okkar bestu vinum og eigum öll hlýjar minningar frá þessum árum. Svo má ekki gleyma Miklagarðs-pörunum sem urðu til á þessum tíma,“ bætti Elísa við og hló.