fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fréttir

Titringur vegna ummæla Þórarins: „Þetta er fáfræði að jarða manninn svona svakalega“

Ritstjórn DV
Mánudaginn 15. október 2018 11:03

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Óhætt er að segja að ummæli Þórarins Ævarssonar, framkvæmdastjóra IKEA, á Landbúnaðarsýningunni í Laugardalshöll um helgina hafi vakið athygli. Þar gagnrýndi Þórarinn aðila í ferðaþjónustu hér á landi fyrir að okra á ferðamönnum. Sitt sýnist hverjum um þessa gagnrýni; fulltrúar ferðaþjónustunnar hafa tekið til varna en Þórarinn stendur við hvert orð.

Umræða um þetta hefur verið fjörug í Facebook-hópnum Bakland ferðaþjónustunnar þar sem flest er við kemur ferðaþjónustunni hér á landi er skeggrætt.

Kaupa mat í Bónus og ferðast á húsbílum

Eftir ræðu sína um helgina sagði Þórarinn í samtali við Fréttablaðið að ferðamenn væru í auknum mæli farnir að kaupa mat í Bónus og ferðast um á húsbílum. Skoraði hann á ferðaþjónustuaðila að lækka verð og leggja meiri áherslu á íslenskan mat. Sjálfur sagðist hann skammast sín fyrir okrið sem viðgengst í ferðaþjónustunni og bætti við að hann væri sjálfur hættur að stoppa á leið sinni um landið.

„Ég skammast mín fyrir Íslands hönd þegar ég horfi á túristana með skeifu, nartandi í dýrasta rúnstykki sem þeir hafa séð,“ sagði hann við Fréttablaðið. Þórarinn nefndi til dæmis íslensku kjötsúpuna sem dæmi um rétt sem hægt væri að selja ódýrara en gert væri. Dæmi séu um að skammturinn á henni sé seldur á um eða yfir tvö þúsund krónur.

Opni IKEA á landsbyggðinni

Eins og að framan greinir hefur ákveðins titrings gætt vegna ummæla Þórarins og hefur hann fengið sinn skerf af gagnrýni í Baklandi ferðaþjónustunnar. Þó skal tekið fram að fjölmargir taka undir með honum og telja hann hafa sitthvað til síns máls.

„Fyrst Þórarinn sér svona mikil viðskiptatækifæri í matarsölu hjá ferðaþjónustubændum þá held ég að hann ætti kannski að opna nokkur útibú á landsbyggðinni og sýna metnað sinn í verki,“ segir maður að nafni Þórir í einu innleggi. Hann bætir svo síðar við að Þórarinn sé að „alhæfa og níða“ niður samkeppnisaðila IKEA í veitingarekstri.

Lækkaði verð en traffíkin jókst ekki

Friðrik Árnason, eigandi Hótels Bláfells, hefur verið í hótel- og veitingarekstri í áraraðir og segir hann að ekki sé einfalt að reka veitingahús á Íslandi vegna kostnaðar. Slíkur rekstur krefjist mikillar útsjónarsemi.

„Orð forstjóra IKEA eru nokkuð sláandi að mér finnst þar sem hann er að bera saman veitingasölu í þekktri stórverslun með mörg hundruð sætum þar sem veitingasalan er gulrót til að fá fólk inn í verslunina frekar en að standa veitingasölu til að hafa af því lifibrauð,“ segir Friðrik og bendir á að þegar fólk kemur á veitingahús sé það ekki eingöngu að greiða fyrir hráefnið heldur líka vinnuna við að búa matinn til, þjónustuna, uppvaskið og rekstur staðarins.

Friðrik segir svo í annarri færslu að hann hafi prófað í sumar að lækka verð í hádeginu og vonast til að traffíkin myndi aukast. „Ég auglýsti víða og sendi pósta víða til að láta vita af þessu. Það breyttist ekkert, það í raun fækkaði gestum á veitingastaðnum á milli ára,“ segir Friðrik og bætir við að kökurnar á staðnum hafi verið heimabakaður og maturinn gerður frá grunni. „Þetta eru ekki há verð en samt hópaðist ekki fólk hingað eins og Þórarinn vill meina að gerist.“

Þreytt gagnrýni

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, gagnrýndi ummæli Þórarins í færslu á Facebook-síðu sinni um helgina.

Jóhannes Þór Skúlason

„Veruleiki fjölmargra í ferðaþjónustunni er bara allt annar en veruleiki IKEA. Gistihús eða veitingahús á landsbyggðinni býr ekki við þann lúxus að þar mokist í gegn hundruð eða þúsundir manna á dag í leit að ódýrum húsgögnum. Þau treysta á ferðamannastrauminn um svæðið sem er mjög misjafn, t.d. eftir árstíma, hvar borið er niður á landinu o.s.frv.“

Jóhannes sagði að algjörlega væri litið fram hjá að fjölmörg gistihús og veitingahús á landsbyggðinni þurfi að ná inn stærstum hluta sinnar veltu á þrem til fimm mánuðum ef reksturinn á að standa undir sér allt árið og til að hægt sé að veita fólki atvinnu til að það geti búið og lifað í viðkomandi byggðarlagi.

„Eflaust er hægt að hagræða á ýmsum sviðum í ferðaþjónustunni og lækka verð að einhverju marki á mismunandi sviðum, en hann er orðinn ansi þreyttur þessi söngur um að standandi okur í greininni sé regla frekar en undantekning. Í allri þeirri umræðu – já allri – er það gegnumgangandi staðreynd að fjöldi ástæðna í rekstrarumhverfi ferðaþjónustufyrirtækja er tekinn út fyrir sviga eins og þær skipti ekki máli. Slík nálgun er því miður frekar líkleg til að valda því að gagnrýnin verði ómálefnaleg eða jafnvel ómakleg.“

Ráðist á manninn

Einar Bárðarson, upplýsingafulltrúi Hafnarfjarðarbæjar og fyrrverandi forstöðumaður Höfuðborgarstofu, blandar sér í umræðuna í morgun og segir:  „Viðbrögð margra forsvarsmanna ferðaþjónustunnar við ræðu framkvæmdastjóra IKEA eru flest á þá leið að hann sé fífl og hann viti ekkert um það sem hann er að tala. Er það? Er virkilega ekkert sem við getum skoðað og ekkert sem við getum gert betur?“

Svörin eru á þá leið að Þórarinn og hans fyrirtæki selji húsgögn, matarsalan sé hliðarsala og IKEA sé í betri stöðu en flest fyrirtæki vegna stærðarhagkvæmni. Einn, Sverrir að nafni, segir að ráðist sé á Þórarin að ósekju. „Þetta er fáfræði að jarða manninn svona svakalega eins og sumir gera hér. Þórarinn er öflugur framkvæmdastjóri og hefur sýnt það með þvílíkri uppbyggingu hvort sem það er á sviði húsgagna eða sænskra kjötbolla.“

Bjarnheiður segir undir færslunni að hún viti ekki til þess að nokkur hafi kallað Þórarin fífl og segist hún vona að enginn af svokölluðum forsvarsmönnum ferðaþjónustunnar hafi gert það. „Það er allt annað að gagnrýna málflutning fólks en það sjálft. Held að flestir hafi vit á því að skilja þar á milli.“

Hvað finnst þér, lesandi góður, um þessa umræðu? Ertu sammála Þórarni eða eru aðilar í ferðaþjónustu að gera sitt besta til að halda verði niðri?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Stjórnarflokkarnir eru að koma sér upp þægilegum merkimiðum þegar styttist í kosningar

Ólafur Þ. Harðarson: Stjórnarflokkarnir eru að koma sér upp þægilegum merkimiðum þegar styttist í kosningar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Næsta skref – byltingakenndar breytingar

Næsta skref – byltingakenndar breytingar