Þann 30. mars árið 1977 gerði Dagblaðið skoðanakönnun á því hvort Íslendingar væru fylgjandi reykingabanni á opinberum stöðum. Á þeim tíma reykti um helmingur landsmanna og reykja mátti víða, til dæmis í flugvélum, sjúkrahúsum og leikskólum. Samkvæmt könnuninni voru 63,9 prósent fylgjandi banni.
Konur voru frekar hlynntari banni en karlar og fólk á landsbyggðinni hlynntari því en fólk á höfuðborgarsvæðinu. „Banna þennan óþverra, rétt eins og hnefaleika,“ sagði kona í Reykjavík. Þrátt fyrir að Íslendingar hafi almennt verið hlynntir banni var það ekki lögfest fyrr en þrjátíu árum síðar, árið 2007. Þá voru reykingar komnar niður í um 20 prósent og nú eru þær í um 10 prósentum.