Hitabylgja hefur sett strik í reikninginn víða í heiminum að undanförnu þó Ísland, suðvesturhornið þá sérstaklega, hafi verið skilið út undan. Hitabylgjur hafa herjað víða að undanförnu og ófá hitamet fallið.
Eins og margir Íslendingar vita hafa íbúar á Norðurlöndunum, Noregi, Danmörku og Svíþjóð sérstaklega, ekki farið varhluta af góðu veðri í sumar. Bjart hefur verið og lítið rignt. Þá er hitabylgja í Bretlandi þessa dagana og eru dæmi um að þök og vegir hafi hreinlega bráðnað í hitanum.
Washington Post tók saman upplýsingar um þessi hitamet. Í borginni Denver í Colorado féll hitamet á dögunum þegar hitinn fór í 40,5 gráður. Sama var uppi á teningnum í Montreal þar sem 147 ára hitamet féll á mánudag þegar hitinn fór í 36,6 gráður. Sautján manns hafa látið lífið í Montreal að undanförnu vegna hitabylgjunnar.
Í Skotlandi fór hitinn í Motherwell, skammt frá Glasgow, í 33,2 gráður þann 28. júní síðastliðinn. Fyrra metið var sett í ágúst 2003, 32,9 gráður. Met var einnig sett á Írlandi, í Shannon nánar tiltekið þennan sama dag, þegar hitinn fór í 32 gráður. Í Belfast á Norður-Írlandi fór hitinn í 29,5 gráður sem er met.
Í Tblisi, höfuðborg Georgíu, mældist hitinn í gær 40,5 gráður en aldrei áður hefur jafn mikill hiti mælst í borginni. Þann 2. júlí síðastliðinn fór hitinn í Jerevan, höfuðborg Armeníu, í 42 gráður sem er jöfnun á gömlu meti. Þá fóru hitatölur í suðurhluta Rússlands nærri gömlum metum þann 28. júní.
Undanfarnir mánuðir hafa verið mjög heitir víða; í apríl fór hitinn í 50,2 gráður í Pakistan sem er hæsti hiti sem mælst hefur í þessum mánuði frá upphafi mælinga á jörðinni. Í september síðastliðnum fór hitinn í San Francisco í 41 gráðu sem er met. Svona mætti raunar lengi telja.
Andrew Freedman, vísindaritstjóri Axios, segir að þessi met séu engin tilviljun og bendi til þess að jörðin sé að hlýna hratt.
Engin hitamet voru sett í Reykjavík í júní. Meðalhiti þann mánuðinn í höfuðborginni var 8,7 gráður. Hæsti hitinn mældist hins vegar á Neskaupsstað þann 29. júní, 24,2 gráður.