Landspítalanum hefur verið gert að greiða Braga Skúlasyni sjúkrahúspresti hálfa milljón króna í skaðabætur. Bragi var einn af fimm umsækjendum um starf deildarstjóra sálgæslu djákna og presta hjá Landspítalanum en Rósa Kristjánsdóttir djákni var á endanum ráðin í starfið. Í kjölfarið höfðaði Braga skaðabótamál á hendur spítalanum á þeim forsendum að augljós og verulegur munur hefði verið á honum og Rósu hvað varðar menntun, starfsréttindi og starfsreynslu, auk þess sem hann hefði um árabil gegnt því starfi sem ráðið hafi verið í og verið staðgengill fráfarandi deildarstjóra. Komst Héraðsdómur að lokum að þeirri niðurstöðu að staðið hefði verið að ráðningarferlinu með saknæmum og ólöglegum hætti.
Bragi hóf störf hjá Ríkisspítölum í júní árið 1989. Hefur hann starfað samfellt þar og síðar hjá Landspítalanum, sem varð til árið 2000 við sameiningu Ríkisspítala og Sjúkrahúss Reykjavíkur. Hefur hann verið í launalausu leyfi síðan 1.júní síðastliðinn.
Umrætt starf heyrir undir geðsvið Landspítalans og auglýst laust til umsóknar í maí árið 2016 en fimm einstaklingar sóttu um stöðuna. Fjórir umsækjendanna boðaðir í starfsviðtal og var Bragi einn þeirra. Þriggja manna nefnd innan spítalans annaðist undirbúning og umsjón með ráðningarferlinu og ákvað að lokum að bjóða Rósu Kristjánsdóttur starfið. Í kjölfarið höfðaði Bragi málið.
Lagði hann fram þau rök að hann hefði uppfyllt skilyrði laga, auglýsingar og hæfniskröfur til þess að hljóta hið auglýsta starf og hélt því fram að Landspítalinn hefði valdið honum fjártjóni og miska með ákvörðun sinni, sem væri ólögmæt. Benti hann á að hæfasti umsækjandinn hefði ekki verið ráðinn og sagði hann aað hann hefði mun meiri reynslu, starfsréttindi og menntun til þess að gegna hinu auglýsta starfi en sú sem ráðin var.
Þá sagði hann augljósasta muninn vera sá að hann hefði um áratugaskeið gegnt starfi sjúkrahússprests, sem eðli máls samkvæmt hafi verið skilyrði þess að fá ráðningu í starf yfirmanns og faglegs umsjónarmanns með starfi presta og djákna. Rósa Kristjánsdóttir væri hins vegar ekki prestur og hefði heldur aldrei aldrei gegnt yfirmannsstöðu hjá spítalanum á sviði sálgæslu. Þá benti hann á að starfsferill hans væri mjög umfangsmikill og langur á meðan Rósa hefði ekki lokið fullnaðarprófi úr háskóla. Auk þess væri Rósa Kristjánsdóttir ekki með fullnægjandi sálgæslunám að baki til að gegna starfinu. Á meðan væri hann með prófgráðu í sálgæslu frá háskólasjúkrahúsi í Bandaríkjunum
Þá voru það rök Braga að ráðning Rósu hefði brotið í bága við lög um þjóðkirkjuna og starfsreglur um sérþjónustupresta en samkvæmt því hefði átt að ráða prest í deildarstjóra- og umsjónarstarf með djáknum og prestum. Þá hafi ekki verið skipuð valnefnd við ráðninguna og haft um hana samráð við biskup.
Landspítalinn byggði sýknukröfu sína einkum á því að umrætt starf deildarstjóra tilheyrir stjórnkerfi spítalans og það sé ótvírætt á valdi stofnunarinnar að ákveða hæfniskröfur og málefnaleg sjónarmið sem leggja skuli til grundvallar við val á milli umsækjenda. Jafnframt væri það á valdi spítalans að ákveða vægi einstakra þátta sem koma til skoðunar við mat og val á milli umsækjenda.
Þá voru lögð fram þau rök að spítalinn hafi ekki verið að ráða í starf sjúkrahússprests eða prests. Í auglýsingu um starfið hafi komið skýrt fram að verið var að leita að „deildarstjóra með próf í sálgæslu og reynslu og þekkingu á stjórnun“ en ekki hafi verið gerð krafa um háskólapróf.
Bent var á að ítrekað hafi verið staðfest af umboðsmanni Alþingis, sem og í dómafordæmum, að niðurstaða um það hver hafi bestu menntunina þegar valið sé á milli umsækjenda um opinbert starf geti eftir atvikum ráðist af fleiri þáttum en fjölda prófgráða eða eininga á háskólastigi. Skipti þar mestu hvort sú menntun sem umsækjandi hafi aflað sér verði talin gera hann hæfari til að sinna því starfi sem um ræðir. Skýrt hafi komið fram í starfsauglýsingunni að ekki væri krafist háskólaprófs í guðfræði eða prestvígslu, heldur hafi einkum verið leitað eftir því að umsækjendur hefðu framhaldsmenntun í sálgæslu. Allir fjórir umsækjendurnir sem kallaðir hafi verið í viðtal hafi uppfyllt það hæfisskilyrði.
Þá var mótmælt þeirri staðhæfingu Braga að hæfasti umsækjandinn hefði ekki verið ráðinn. Sú sem ráðin hafi verið í starfið hafi verið með lengri starfsaldur en Bragi, eða 40 ára starfsreynslu úr heilbrigðiskerfinu, fyrst sem hjúkrunarfræðingur frá árinu 1981 og síðan sem djákni.
Héraðsdómur dæmdi Braga hins vegar í vil. Í niðurstöðu dómsins kemur fram að nefndarmenn hafi ekki talið nauðsynlegt að framkvæma nánari könnun á þessum þætti í ráðningarferlinu, sem sneri að menntun og hæfni umsækjenda á sviði sálgæslu, heldur talið rétt að einblína á stjórnunarþátt starfsins. Þá kemur fram nefndarmenn sem annast áttu ráðninguna bjuggu ekki yfir sérstakri þekkingu á sálgæslu.
Var það mat dómsins að ekki hefði farið fram heildstætt eða samanburður á menntun eða hæfni umsækjenda til að sinna sálgæslu, sem telst þó til 75 prósenta starfsskyldna deildarstjóra. Þá segir í niðurstöðu að óumdeilt sé að við mat á stjórnunarreynslu umsækjenda hafi matsnefndin ekki litið til stjórnunarreynslu Braga úr starfi hans við sálgæslu hjá Ríkisspítölum.
Þá var það mat dómsins að málsmeðferð spítalans var slíkum annmörkum háð að starfsmenn hans teljast hafa vanrækt veigamikil atriði í rannsókn sinni við undirbúning ráðningar deildarstjóra sálgæslu djákna og presta. Hafi sú vanræksla orðið til þess að ekki var litið til þess að Bragi var í reynd hæfari umsækjandi en sá einstaklingur sem ráðinn var í starf deildarstjóra.